Guðrún Karls Helgudóttir: Biblían er mest spennandi bók sem er til

Guðrún Karls Helgudóttir: Biblían er mest spennandi bók sem er til

Þó að við sem erum í evangelísku-lútersku þjóðkirkjunni horfum meira til boðskapar Nýja testamentisins en Gamla testamentið órjúfanlegur hluti Biblíunnar og geymir sögur af því hvernig það er að vera manneskja. Við túlkum boðskapinn út frá samtímanum og jafnvel þeir kristnir menn, sem segjast aðhyllast bókstaf Biblíunnar, túlka því að í Biblíunni er að finna margar Lesa meira

Þyngsta frumefnið: „Jón Kalman hefur aldrei skorast undan að takast á við stóru spurningarnar“

Þyngsta frumefnið: „Jón Kalman hefur aldrei skorast undan að takast á við stóru spurningarnar“

Soffía Auður Birgisdóttir skrifar: Í ljóðinu HIN NÝJU TRÚARBRÖGÐ, sem er upphafsljóð Þyngsta frumefnisins eftir Jón Kalman Stefánsson, kemur Jesús skríðandi út úr tjaldi í morgunsárið og fuglasöngur berst úr blautum birkiskógi og – eins og segir í ljóðinu: „inni í fuglasöngnum / bíður guð / með dauðann, eilífðina, svörin – / samt hefur engin spurt“ (15). Aðeins síðar segir: „Maður bjargar ekki heiminum / með svörum, eilífðinni, dauða eða guði“ og Jesús er ekki að velta slíkum hlutum fyrir sér heldur vill hann hafa það notalegt í góðra vina hópi í tjaldútlegu, hita sér kaffi og hlusta á fuglasönginn. Boði hann eitthvert fagnaðarerindi felst það í þránni eftir mannlegu samneyti og að „einhver sem skiptir öllu máli / [sé] á lífi“ – eða eins og segir í lokalínu ljóðsins: „sú þrá eru mín trúarbrögð“ (16). Þetta ljóð kveikti hjá mér hugrenningatengsl við ljóð Gerðar Kristnýjar úr síðustu ljóðabók hennar Jarðljós, þar sem hún bregður á leik með biblíusögur og mátar frásagnir af fæðingu Krists, kraftaverkum hans, dauða og upprisu, við líf og dauða í íslenskri sveit. En í Þyngsta frumefninu tengist þetta upphafsljóð beint og óbeint mörgum fleiri ljóðum bókarinnar. Kannski má segja að þráin eftir að einhver sem skiptir öllu máli sé á lífi og söknuðurinn eftir þeim sem ekki eru lengur á lífi séu rauðu þræðir ljóðabókarinnar. Titill lokaljóðsins vísar einnig til trúarbragða, það nefnist TÝNDA BOÐORÐIÐ og fjallar meðal annars um samhjálp og kærleika á ógnartímum fyrr og nú og möguleikann á að útrýma hatrinu sem virðist ráðandi afl í heiminum. Í þessu lokaljóði má líka lesa „að lífið er það eina sem skiptir máli“ og framar í bókinni höfum við lesið að „Týnda boðorðið“ sé þetta: „Elskaðu lífið eins og barnið þitt, því lífið er allt það sem er öðruvísi en þú“ (91). Lífið, dauðinn og ástin; þetta er þau stóru þemu sem ljóðin í Þyngsta frumefninu snúast um. Jón Kalman hefur aldrei skorast undan að takast á við stóru spurningarnar og gerir það svo sannarlega ekki heldur í Þyngsta frumefninu. Í öðru ljóði bókarinnar, PARÍS Í SEPTEMBER, er nokkrum sinnum vísað til sólarupprásarinnar en í henni geta falist bæði möguleikar og ógn. Ljóðið er í fimm hlutum og yfirborðsmyndin er af skáldi sem situr á kaffihúsi í París, „þar sem lífið flæðir straumþungt / um strætin / til að fanga […]“ (22). Skáldið virðir fyrir sér mannlífið og hugleiðir tilgang lífsins og tilgangsleysið, mennskuna og ómennskuna, hefndina og gæskuna sem – eins og segir í ljóðinu – „er frábært orð / yfir sólarupprásina / möguleikana / og upphafið“ (20). Þetta langa ljóð flæðir áfram líkt og mannlífið á strætunum, líkt og hugsanir skáldsins og þessi flæðandi ljóðstíll einkennir fleiri ljóð bókarinnar, reyndar flest þeirra. Löng og frásagnarkennd ljóð eru fremur undantekning en regla í íslenskri samtímaljóðlist þar sem knöpp og meitluð ljóð eru algengari, en Jóni Kalman liggur margt á hjarta og í sínum löngu frásagnarkenndu ljóðum tekst honum víða að fanga nútímann og ógnir hans á frábæran hátt. Hér mætti til dæmis nefna ljóðið ÞAÐ ER BANNAÐ AÐ DEYJA Á SVALBARÐA úr síðasta hluta bókarinnar þar sem ort er um hina ógnvænlegu hlýnun andrúmslofts á jörðunni með því að lýsa aðstæðum á þessu heimskautasvæði þar sem íbúarnir eru „svolítið áhyggjufull“ því sólin „virðist hafa færst nær síðustu árin, / jöklarnir svitna, þeir stynja, þeir hverfa, / skilja eftir sig stækkandi land“ (95). Þetta er áhrifamikið og magnað ljóð: „Svalbarði / er staðurinn þar sem óvissa tímans ríkir“ (96) og þar koma fram afleiðingar „þess að við grófum of djúpt eftir kolum / og gulli og olíu, / grófum allt of djúpt, / svo gráðug að við urðum grimm, / grófum svo djúpt / að við rákum skófluna í erfðasyndina, / sem vaknaði“ (97). Ljóð Jóns Kalmans eru bæði persónuleg og pólitísk og skáldið gerir víða tilraun til að fanga okkar klikkaða samtíma og ógnvænlegar framtíðarhorfur, eins og til að mynda í prósaljóðinu ÚR MINNISBLÖÐUM DJÖFULSINS þar sem stuttum persónulegum atriðum er skotið inn á milli atriða sem djöfullinn sjálfur gæti hafa hripað niður í minnisbók sína, svo úr verður mögnuð blanda. Ljóðið hefst svona: … sundurþykkni, öfund, landamæri, jarðsprengjur, símanúmerið hjá Trump, Orban, Netanyahu og þeim öllum, brenna Kóraninn í Kaupmannahöfn, eða bara allstaðar, muna að kaupa nýjar buxur, hringja í mömmu, aftur sundurþykkni, má aldrei gleyma, líka hreinleika þjóðar, breytingar eru skaðlegar, kaupa plötu með bee gees, segja Elon Musk að hann sé bestur, gáfaðastur. Kínamúrinn geggjuð hugmynd, búa til slagorð um það, þeir sem eru ólíkir og öðruvísi eru ógn […] (49) Þessi sneiðmynd af minnisblöðum djöfulsins endar síðan á orðunum „meira síðar…“ – enda vafalaust af nógu að taka. Í ljóði sem nefnist ÞAR SEM ÞÚ BÍÐUR fáum við skýringu á titli bókarinnar, en það hefst svona: Sorgin er þyngsta frumefnið ásamt söknuðinum bæði beygja þau tímann leysa upp þyngdaraflið og allt nemur staðar í þeim jafnvel þótt lífið sé ætíð á fljúgandi ferð, kann ekki annað, getur ekki annað (53) Í fjórða hluta bókarinnar yrkir skáldið til vinar síns, Eiríks Guðmundssonar, sem lést árið 2022, og spyr í upphafi: Allar stundirnar sem við áttum eftir að lifa saman hvert fara þær nú og minningarnar sem við eignuðumst saman, þungar kistur af þeim sem ég ber innra með mér þar til allt slokknar, fjársjóðs- kistur, hamingjukistur, fullar af flissi, tónlist, bókum, fullar af þér, sumar einungis opnaðar með ljóði – hvernig get ég opnað þær núna án þess að bresta (83) Ljóðið er fallegt og tilfinningþrungið og tjáir á einlægan hátt sorgina þungu og söknuðinn eftir kærum vini. Strax í kjölfarið fylgir örstutt ljóð með yfirskriftinni EINHVERSTAÐAR ER VON: Draumarnir eru staðurinn þar sem þeir dánu eru á lífi Síðan vöknum við Margt er líkt með draumum og ljóðlist, athöfninni að yrkja ljóð má líkja við það að dreyma vakandi og með því að lesa ljóð getum við tekið þátt í draumastarfi skálda. Þyngsta frumefnið er efnismikil og áhrifamikil ljóðabók og tilefni til að ítreka hér að lokum það sem kemur fram í ljóðinu SKILABOÐ FRÁ FRAMTÍÐINNI, að rannsóknir sýna: að ljóðalestur örvar heilann, opna þar nýjar rásir, ef ekki nýjar veraldir, þær staðfesta að sá sem les ljóð hræðist síður nýjar hugmyndir, fagnar þeim jafnvel, og er líklegri til að sýna gæsku (77) Soffía Auður Birgisdóttir, gagnrýnandi Víðsjár, fjallar um Þyngsta frumefnið, ljóðabók Jóns Kalmans. Soffía Auður Birgisdóttir er doktor í bókmenntafræði og starfar við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Hún flutti pistil sinn í Víðsjá sem finna má í spilaranum hér að ofan.

Ákærður ásamt fimm öðrum fyrir ítrekuð brot gegn eiginkonu sinni

Ákærður ásamt fimm öðrum fyrir ítrekuð brot gegn eiginkonu sinni

Fyrrverandi bæjarfulltrúi í breska bænum Swindon hefur verið ákærður fyrir ítrekuð kynferðisbrot á árunum 2010 til 2023 gegn þáverandi eiginkonu sinni. Fimm aðrir menn eru einnig ákærðir fyrir að brjóta gegn henni og lögreglan segist eiga eftir að bera kennsl á einn til viðbótar í tengslum við málið. Philip Young er meðal annars sakaður um að hafa byrlað Joanne Young og nauðgað henni. Lögreglan segir Joanne Young hafa ákveðið að stíga fram undir nafni. Málinu hefur í breskum miðlum verið líkt við mál Gisele Pelicot í Frakklandi. Henni var nauðgað af tugum manna meðan hún var undir áhrifum lyfja sem eiginmaður hennar hafði gefið henni. Dominique Pelicot var dæmdur í 20 ára fangelsi og fimmtíu aðrir fengu fangelsisdóma fyrir að nauðga Gisele. Philip Young var bæjarfulltrúi í Swindon frá 2007 til 2010. Hann er ákærður fyrir 56 kynferðisbrot, þar á meðal nauðgun og vörslu barnaníðsefnis. Hann tók ekki afstöðu til ákæruefnanna þegar hann var dreginn fyrir dóm í byrjun viku. Philip er í gæsluvarðhaldi en hinir mennirnir eru frjálsir ferða sinna. Þeir verða næst dregnir fyrir dómara 23. janúar. Þrír þeirra eru ákærðir fyrir nauðgun og tveir fyrir önnur kynferðisbrot gegn konunni. Tveir þeirra sem eru ákærðir fyrir nauðgun neituðu sök í dómssal en hinir hafa ekki tekið afstöðu til ákæruefnanna.

Ósmann: „Þessi tilraun svissnesks innflytjanda lukkast afbragðsvel“

Ósmann: „Þessi tilraun svissnesks innflytjanda lukkast afbragðsvel“

Gauti Kristmannsson skrifar: Hugsanlega mætti flokka það sem athyglisverða tilraun hjá innflytjanda, höfundi sem ekki er af íslensku bergi brotinn, heldur svissnesku, að skrifa bók upp úr því sem kallað hefur verið þjóðlegur fróðleikur hér á landi, eða öllu heldur heimildaskáldsögu um ævi Jóns Magnússonar ferjumanns í Skagafirði, sem kallaður var Ósmann á sínum tíma, hafi ég skilið það rétt. Höfundurinn hefur birt tvær skáldsögur sem flokkast til glæpasagna, en sögusviðið í þeim er Raufarhöfn sem er eins fjarri Reykjavík og unnt er og hafa þær slegið í gegn innan lands sem utan. Schmidt skrifar á móðurmáli sínu, þýsku, en bækurnar hafa einnig verið þýddar á íslensku af Bjarna Jónssyni eins og raunin er um þessa sem hér er undir. Einhver hafa talið það í mín eyru vera dálitla hótfyndni að sögurnar endi allar á orðhlutanum -mann, en það er vafalaust tilviljun, enda mun Ósmann hafa fengið sitt nafn á meðan hann lifði á síðari hluta nítjándu aldar og fram á þá tuttugustu. Hins vegar eru það kannski höfuðpersónurnar í sögunum sem eiga eitthvað sameiginlegt, ekki beinlínis, en þó það að vera „dálítið spes“ eins og höfundurinn sjálfur kallaði Ósmann á upplestri í Skáldu á dögunum. Það er eins og Schmidt dragist að svona persónum og honum tekst listilega að draga fram þessi sérkenni af fullri samlíðan fyrir lesendur, það er eitt af helstu afrekum höfundar að búa til svona heilsteypta en „dálítið spes“ karaktera. Sagan snýst sem sagt um ævi ferjumanns sem aldrei fór langt frá fæðingarstöðvunum, kom aldrei til Reykjavíkur, hvað þá útlanda. Hann er samt tengiliður ferðalanga við umheiminn, þeirra fjölmörgu sem flúðu harðærin á Íslandi til Norður-Ameríku, útlendinga á ferð um landið, eða einfaldlega sveitunga sem þurftu að flytja rollur til Sauðárkróks eða eitthvað annað. Lítur ekki út fyrir að vera mjög dramatískt efni, en annað kemur á daginn. Lífið sjálft er eitt drama eins og oft hefur verið bent á og það er skemmtilega undirbyggt í sögunni allri, þar sem Ósmann leikur sitt hlutverk sem við lesendur fylgjumst dálítið með eins og hann sé á sviði og kannski gerir hann sér sjálfur grein fyrir því þegar hann gengur með leikaradrauma í maganum. En líf Ósmanns er nær því að vera harmleikur en hitt, þótt reyndar nái hann einu hjónabandi í lífinu. Hamingjan er hins vegar endaslepp, en samt tekst honum að lifa mikið með mörgum vinum sem gjarna koma í byrgið hans til að sumbla með honum, en honum þótti víst sopinn góður. Bygging sögunnar og frásagnarháttur eru áhugaverð, sagan virðist í fyrstu vera fremur klassísk þriðju persónu frásögn með alvitrum sögumanni og er það kannski í stíl við söguefnið á nítjándu öld. En smám saman læðist sögumaðurinn inn, verður nærgöngulli og sjálfsmiðaðri ef svo mætti segja, hann verður persóna í sögunni og það er spennuþáttur í henni að komast að því hver hún er. Lengi vel hélt ég að þetta væri listamaðurinn sem á blómamyndina á kápunni, en svo reyndist ekki vera og verða lesendur sjálfir að komast að þessu. Sagan fer dálítið fram og aftur í tíma þótt hún sé samt sem áður að mestu krónólógísk, fer yfir ævi Ósmanns frá yngri árum til dauðadags, en í upphafi er farið aðeins fram og aftur og síðan reynist sögumaðurinn dularfulli ekki fullkomlega áreiðanlegur. Hver kafli er til dæmis með ártali og útdrætti úr annáli fyrir það ár og tiltekið er hversu gamall Ósmann er á því ári. Sögumaðurinn flakkar hins vegar töluvert hingað og þangað í tíma líkt og til að skýra aðeins fyrir lesendum viðbrögð Ósmanns við hinum ýmsu áföllum sem hann henda. Það er hins vegar vel dregið fram að þessi áföll eru ekkert ólík þeim sem hentu aðra Íslendinga á þessum tíma, fátæktin, sjúkdómarnir, barnadauðinn og ofdrykkjuslysin herja á alla og verður þessi tilvera ljóslifandi í fremur blátt áfram lýsingum á þessu öllu. Lífsbaráttan er hörð, en þó er Ósmann ekki í miklum vandræðum með að afla matar, mikill veiðimaður á fisk og ekki síst seli og er þeim veiðum lýst af töluverðri nákvæmni og verður áhugavert að lesa gagnrýni þýskra lesenda á þann þátt. En svona var lífið, fær maður á tilfinninguna, og það er kannski ekki síst fyrir orðfærið í íslensku þýðingunni sem er afbragðsvel unnin, höfundurinn er sjálfur stórhrifinn af henni og kveður íslensku gerðina vera í raun frumtextann, enda er bókin unnin upp úr íslenskum heimildum, áður ritaðri ævisögu og ýmsum heimildum öðrum. Þýðandinn, Bjarni Jónsson, hefur greinilega nýtt sér þessar heimildir við vinnu sína. Joachim er líka ófeiminn við að nýta sér textatengsl við íslenskar samtímabókmenntir, ferðalag til Segulfjarðar er ekki einu sinni vink til Hallgríms Helgasonar heldur beinlínis tilvitnun eins og höfundur getur um í eftirmála. Sú sigling eftir brennivíni minnir mig líka á aðra bátsferð í skáldsögunni Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson. Segja má að með þessu geri Joachim tilraun til að skrifa verk sitt inn í íslenskar samtímabókmenntir. Það gerði hann að vissu leyti þegar með Kalmann með vali sínu á sögusviði þar, en ég minnist þess einnig að hann gerði tilraunir í þýsku útgáfunni til að smygla íslensku orðfæri inn í þýskuna; eitt dæmið var beinþýðing á því sem við Íslendingar köllum „að vinna í fiski“ en slíkt gera fáir á þýsku held ég. En þannig verða þessi verk innflytjanda „inni á milli“ svo vísað sé til hugmynda Homis Bhabhas um „in-between“ stöðu innflytjenda, með báða fætur í báðum menningum, en kannski ekki alveg í hvorugri. Ég held reyndar að þetta sé svartsýni sem ekki standist, með tíð og tíma verða nýmælin að utan algjörlega hluti af menningunni og við erum að sjá um þessar mundir allmarga innflytjendur gera sig gildandi í íslenskum bókmenntum. Þetta fólk gerir þær sannarlega fjölbreyttari og litríkari, það bætir við nýrri vídd í tjáningu á íslensku. Þannig má vel halda því fram að þessi tilraun svissnesks innflytjanda hafi lukkast afbragðsvel og við Íslendingar getum verið þakklátir fyrir þessa nýju sýn á okkar eigin þjóðlega fróðleik. Gauti Kristmannsson, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár á Rás 1, rýnir í Ósmann eftir Joachim B. Schmidt. Gauti Kristmannsson flutti pistil sinn í Víðsjá sem finna má hér í spilara RÚV. Hann er prófessor í þýðingafræði við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur fjallað um samtímabókmenntir í Víðsjá síðustu tvo áratugi.