Hert á skotvopna- og hryðjuverkalöggjöf Nýja Suður-Wales
Skotvopnalöggjöf hefur verið hert í ástralska fylkinu Nýja Suður-Wales, hálfri annarri viku eftir að feðgarnir Sajid og Naveed Akram skutu fimmtán til bana á ljósahátíð gyðinga á Bondi-ströndinni. Löggjafarþing fylkisins herti einnig ákvæði hryðjuverkalaga. Héðan í frá má almenningur ekki eiga fleiri en fjögur skotvopn en bændum verður heimilað að eiga allt að tíu byssur. Lögregla fær jafnframt auknar heimildir til að draga úr eða banna mótmælasamkomur í allt að þrjá mánuði eftir hryðjuverkaárás. Einnig verður óheimilt að bera merki bannaðra hryðjuverkasamtaka á almannafæri. Ný ákvæði hryðjuverkalaga banna einnig að hrópuð verði slagorð til stuðnings uppreisn Palestínumanna á herteknu svæðunum, sem þingið segir kynda undir ofbeldi. Alríkisstjórnin hefur boðað herta löggjöf og er þegar tekin að kaupa umframskotvopn af almenningi. Akram-feðgarnir eru taldir hafa undirbúið atlögu sína mánuðum saman, þeir hafi meðal annars æft skotvopnanotkun og herkænsku í sveitum Nýja Suður-Wales. Lögregla skaut föðurinn til bana en sonarins bíða réttarhöld fyrir 15 morð og 40 morðtilraunir.