Markaðssetning fæðubótarefna fyrir börn á gráu svæði

Markaðssetning fæðubótarefna fyrir börn á gráu svæði

Hópur næringarfræðinga gagnrýnir markaðssetningu steinefnadrykks fyrir börn og segir rangfærslur í innihaldslýsingu. Forsvarsmaður telur gagnrýnina byggjast á misskilningi frekar en staðreyndum. Markaðssetning á gráu svæði Hátt í tuttugu næringarfræðingar sendu frá sér skoðanagrein í gær þar sem fjallað var um markaðssetningu fæðubótarefna fyrir börn. Þar er vísað til steinefnadrykks sem er nýr á markaði og ætlaður börnum. Nafns drykkjarins er hvergi getið, en líklega er vísað til Hydration Kids frá Happy Hydrate, sem kom á markað í september. Dögg Guðmundsdóttir, klínískur næringarfræðingur, segir markaðssetninguna á gráu svæði. „Um er að ræða fjölvítamín, eins og þetta er markaðssett, en þetta inniheldur til dæmis salt. Þó svo að það sé ekki mikið er þegar mikil neysla á salti í mataræðinu. Það safnast saman þegar saman kemur, þannig að lítið getur verið mikil viðbót. Eins eru vítamín í þessu sem gögnin sýna okkur að börn þurfa ekki á að halda, nema að um sé að ræða einhæft mataræði.“ Drykkurinn er sagður fyrir börn fjögurra ára og eldri. Á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að hann auki vökvastuðning, sé tannvænn valkostur og hollari en hefðbundnir djús- og gosdrykkir. Rangfærslur í innihaldslýsingu og börn notuð í markaðssetningu Dögg setur spurningarmerki við þessar staðhæfingar og segir margar rangfærslur í innihaldslýsingu. Til að mynda sé hitaeiningafjöldi og hlutfall vítamína ekki rétt, auk þess sem drykkurinn innihaldi sætuefni en sé markaðssettur án sætuefna. Þá sé áhyggjuefni hvernig drykkurinn er markaðssettur á samfélagsmiðlum, þá sér í lagi af hálfu áhrifavalda. „Okkur finnst þetta mjög alvarlegt því þarna er verið að nota börn í markaðssetningu og þetta er mikið markaðssett af áhrifavöldum, sem augljóslega er ekki beint lagt línurnar um hvað má og hvað má ekki. Og það eru lög hvað varðar markaðssetningu á matvælum og öðru til barna sem þarf að hafa í huga.“ Hvetur fyrirtæki til að vanda betur til verka Dögg segir mikilvægt að fyrirtæki sem framleiði fæðubótaefni vandi betur til verka. Þá hvetur hún foreldra til að vera á verði og láta markaðssetningu á samfélagsmiðlum ekki blekkja sig. „Og í raun og veru að kynna sér vörur vel, áður en þær eru prófaðar. Því þetta varðar börnin okkar og þau treysta okkur til að velja rétt. Og kynna sér vöruna út frá þörf en ekki hvað er verið að reyna að selja þeim.“ Slíka fæðubót fyrir börn eigi ekki að nota nema í ítrustu neyð. „Þetta er alls ekki ráðlagt til daglegrar neyslu. Það er ekki nema að um sé að ræða einhvers konar sjúkdómsástand, eins og uppköst eða niðurgang eða gríðarlega mikinn svita, mikla hreyfingu eða verið í miklum hita sem þetta gæti gagnast börnum,“ segir Dögg. „Eina fæðubótaefnið sem við vitum að íslensk börn þurfa á að halda til viðbótar við gott mataræði er D-vítamín sem vill oft gleymast.“ Fagnar allri gagnrýni Arnar Gauti Arnarsson, forsvarsmaður Happy Hydrate, segist fagna allri gagnrýni. Hún byggi þó á misskilningi fremur en staðreyndum. „Mér finnst umfjöllunin búin að snúast út í að þetta sé, þetta er náttúrlega merkt sem fæðubótarefni, þannig þetta á ekki að bjarga þér eða gera neitt fyrir þig. Þú þarft þetta ekki. En þetta getur verið góð viðbót fyrir krakka sem eru kannski að æfa mikið,“ segir Arnar Gauti. „Þetta er markaðssett af foreldrum og þau taka valið fyrir krakkana. Þarf krakkinn minn á þessu að halda? Þetta er engin töfralausn, en þetta er hollari kosturinn.“ Mikil eftirspurn frá foreldrum Arnar Geir segir vöruna setta á markað vegna skýrrar eftirspurnar frá foreldrum. „Hugmyndin er sú að foreldrar hafi fleiri valkosti. Og margir notendur Happy Hydrate spurðu sérstaklega um útgáfu sem hentaði krökkum.“ Arnar Gauti segir að varan hafi verið unnin í nánu samstarfi við þýskan framleiðanda sem hafi áratuga reynslu af framleiðslu á næringarvörum og fæðubótaefnum fyrir alla aldurshópa. Hráefni og hlutföll þeirra byggi á evrópskum næringarviðmiðum. Þá hafi öryggi og hlutfall næringarefna verið staðfest af næringarfræðingum framleiðanda. „Markaðssetningin, við stöndum við hana. Og innihaldsefnin, þau eru öll hárrétt hjá okkur, okkar megin. Næringarfræðingarnir okkar töldu þetta vera bestu lausnina.“

Þegar stjórn Pútíns fellur mega Vesturlönd ekki gera sömu mistök og síðast

Þegar stjórn Pútíns fellur mega Vesturlönd ekki gera sömu mistök og síðast

Það var til eilífðar - þangað til það var ekki lengur - þannig mætti ef til vill snara titli bókarinnar It was forever - until it was no more , bók um síðustu ár Sovétríkjanna, eftir rússnesk-bandaríska félagsfræðinginn Alexei Yurchak. Rússneski stjórnarandstæðingurinn Vladimir Kara-Murza segir titilinn lýsa því fullkomlega, hvernig breytingar á rússnesku stjórnskipulagi ganga fyrir sig. Rætt var við hann í Speglinum, sem hlusta má á í spilaranum hér fyrir neðan, eða lesa umfjöllunina þar fyrir neðan. Heimsbyggðin má ekki endurtaka mistökin frá falli Sovétríkjanna, þegar engan stuðning var að finna fyrir lýðræðisöfl í Rússlandi, segir áhrifamaður í rússnesku stjórnarandstöðunni. Lýðræðislegt Rússland sé eina tryggingin fyrir friði í Evrópu. Stjórnir sem áttu að stjórna að eilífu hrundu eins og spilaborgir „Þessi ríkisstjórn virðist sterk, hún virðist stöðug, hún virðist eilíf - en svo er hún allt í einu horfin,“ segir Kara-Murza, „bæði keisarastjórnin 1917 og kommúnistastjórnin 1991, féllu á þremur dögum. Bókstaflega.“ Þess vegna, segir hann, er óhætt að fullyrða að hvenær sem næstu stjórnarskipti verða í Rússlandi, þá muni þau bera brátt að og koma öllum að óvörum. En það sem við vitum, segir hann, er að mörg mistök voru gerð þegar Sovétríkin féllu, því að hvorki Rússar né ráðamenn á Vesturlöndum voru undir þessi skyndilegu umskipti búnir. Fall kommúnistastjórnarinnar „skapaði einstakt tækifæri til lýðræðisumbóta, til að stofna alvöru, venjulegt, siðmenntað lýðræðisríki í Rússlandi, en menn misstu af því tækifæri, klúðruðu því, og við sitjum uppi með afleiðingarnar af því í dag." 25 ára fangelsisdómur og tvær eitranir Kara-Murza, sem tók þátt í alþjóðlegri friðarráðstefnu í Reykjavík í liðinni viku, hefur verið virkur í andstöðunni við ríkisstjórn Vladimírs Pútín frá upphafi á ýmsum vettvangi, sem blaðamaður, rithöfundur, kvikmynda- og þáttagerðarmaður jafnt innan og utan Rússlands, en líka sem beinn þátttakandi í rússneskum stjórnmálum. Það var hann bæði sem frambjóðandi í kosningum og hægri hönd Boris Nemtsovs, ráðherra í stjórn nafna hans, Boris Jeltsíns, og leiðtoga stjórnarandstöðunnar frá upphafi valdatíðar Pútíns. Nemtsov var myrtur í byrjun árs 2015 og sjálfur hefur Kara-Murza í tvígang verið lagður fársjúkur inn á sjúkrahús með lífshættuleg eitrunareinkenni af völdum óþekktra eiturefna. Þá var hann handtekinn og dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að fordæma innrás Rússa í Úkraínu og „breiða út ósannindi um herinn“. Eftir rúmlega tveggja ára fangelsisvist - þar af ellefu mánuði í einangrun - var honum sleppt í fangaskiptum Rússa og Vesturlanda. Uppgjör við ógnarstjórn fortíðar er forsenda lýðræðislegrar framtíðar Kara-Murza er á meðal ötulustu og áhrifamestu baráttumanna fyrir fyrir lýðræði í Rússlandi og vinnur að því hörðum höndum að koma í veg fyrir að menn geri sömu mistök og síðast, þegar núverandi stjórn fellur. Þar vega tvenn mistök þyngst, segir Kara-Murza, og þau fyrri voru gerð heima í Rússlandi. Þau fólust í því að ekkert og engin voru dregin til ábyrgðar fyrir glæpi kommúnistastjórnarinnar, segir hann, og að ekkert eiginlegt uppgjör við Sovét-tímann hafi farið fram. Sagan sýni slíkt uppgjör sé forsenda þess að þjóðir sem losna undan oki einræðis og kúgunar nái að koma á raunverulegu lýðræði og halda því. Þetta gildi jafnt um þau Austur-Evrópulönd sem tekist hefur að festa lýðræðið í sessi og Argentíu og Suður-Afríku, svo nokkur dæmi séu nefnd. Ekkert uppgjör í Rússlandi og þess vegna komst Pútín til valda Slíkt uppgjör getur verið með ýmsu móti, segir Kara-Murza: Sannleiks- og sáttanefndir, rannsóknarnefndir eða réttarhöld - en hvaða leið sem farin er, þá er eitt sem aldrei má vanta, og það er birting allra gagna um glæpi einræðis- og ógnarstjórnarinnar, hverjir þeir glæpir voru, hverjir frömdu þá og fyrir hverja og svo framvegis. Nauðsynlegt er að gerð sé grein fyrir þeim og þeir skoðaðir, ræddir og fordæmdir, opinberlega, til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Ekkert af þessu var gert í Rússlandi og þau sem frömdu eða báru ábyrgð á hryllilegum glæpum sovéttímans, fólk í KGB og kommúnistaflokknum til dæmis, fengu einfaldlega að fara frjáls ferða sinna eins og ekkert hefði í skorist. „Gleymum þessu bara, hugsaði fólk, sópum því undir teppið og höldum áfram. En það virkar aldrei þannig,“ segir Kara-Murza. „Vegna þess að ef hið illa er ekki skoðað og rætt fyrir opnum tjöldum og fordæmt opinberlega, þá snýr það aftur. Sem er nákvæmlega það sem gerðist þegar Vladimír Pútín, fyrrverandi yfirmaður í KGB, komst til valda, bara átta árum eftir fall Sovétríkjanna.“ Vesturlönd brugðust Hin stóru mistökin sem gerð voru við fall Sovétríkjanna, segir Kara-Murza, skrifast á Vesturveldin, sem að hans mati voru hvorki nógu tilbúin né nægilega viljug til að aðstoða þau öfl í Rússlandi sem reyndu að koma þar á lýðræði. Ekki tilbúin að fagna þeim vísi að rússnesku lýðveldi sem kom undan oki sovéttímans og bjóða það velkomið í sinn hóp, öfugt við það sem þau gerðu í tilfelli fyrrum Sovétlýðvelda og Evrópuríkja austan hins fallna járntjalds. „Tækifærið sem þeim ríkjum bauðst til að verða hluti af frjálsri, lýðræðislegri og efnahagslega sterkari Evrópu og Vesturlöndum almennt var mögulega sterkasti hvatinn fyrir lýðræðisöfl þessara ríkja til að halda baráttunni þar til markmiðinu var náð. Þannig lýsti Vaclav Havel, fyrsti forseti lýðræðislegrar Tékkóslóvakíu, allri lýðræðisbaráttu Tékka eftir fall Sovétríkjanna sem „endurkomu“ landsins til Evrópu. Þetta stóð Rússum aldrei til boða,“ segir Kara-Murza, og það sem verra var, þegar þeir báru sig eftir því fengu þeir engin viðbrögð. Jeltsín fékk ekkert svar frá NATO um mögulega aðild Rússa „Til dæmis í desember 1991, þegar Boris Jeltsín skrifaði Manfred Wörner, framkvæmdastjóra NATO, bréf og viðraði í fyrsta skipti opinberlega og formlega möguleikann á framtíðaraðild Rússa að bandalaginu, þá fékk hann ekki einu sinni svar,“ segir Kara-Murza. Þegar skoðuð séu blöð og tímarit og fréttaflutningur frá þessum tíma sjáist glöggt að megin skýringin á þessu fálæti er einfaldlega sú að ráðamenn á Vesturlöndum vissu hreinlega ekki hvernig þeir áttu að bregðast við þessum gjörbreytta veruleika. Þeir hafi greinilega búist við því að Sovétríkin myndu vara til eilífðarnóns og skyndilegt fall þeirra komið þeim algjörlega í opna skjöldu. Þetta andvaraleysi og algjör skortur á undirbúningi Vesturlanda fyrir eitthvað þessu líkt reyndist á endanum banabiti rússneskra lýðræðisumbóta, segir Kara-Murza; dýrkeypt mistök, sem ekki mega endurtaka sig. Lýðræðislegt Rússland eina tryggingin fyrir langvinnum friði í Evrópu „Við getum ekki og höfum engan rétt til að endurtaka sömu mistök næst,“ segir Kara-Murza. „Enginn veit nákvæmlega hvenær eða hvernig Pútín-stjórnin líður undir lok, en við vitum að hún mun gera það, því ekkert varir að eilífu.“ Hann segir Rússland einfaldlega of mikilvægt og of stórt - stærsta land í heimi - til að menn geti leyft sér að klúðra næsta tækifæri, hvenær sem það gefst. Það sem gerist í Rússlandi hafi áhrif á heiminn allan, eins og innrás Rússa í Úkraínu staðfesti með skýrum og skelfilegum hætti. Það sé þess vegna hvorttveggja skylda og hagur Vesturlanda að vera tilbúin að rétta rússneskum lýðræðisöflum öfluga hjálparhönd næst þegar færi gefst, því tíminn verður naumur og hlutirnir þurfa að gerast hratt. „Því eins og íslenskur þingmaður í Evrópuráðinu (Sigurður Helgi Pálmason, innsk. blm.) orðaði það á dögunum,“ segir Kara-Murza, „þá er besta tryggingin - og að mínu mati eina tryggingin - fyrir langtímafriði í Evrópu - lýðræðislegt Rússland. Og rétti tíminn til að vinna heimavinnuna til að tryggja að það geti orðið að veruleika er núna.“