Markaðssetning fæðubótarefna fyrir börn á gráu svæði
Hópur næringarfræðinga gagnrýnir markaðssetningu steinefnadrykks fyrir börn og segir rangfærslur í innihaldslýsingu. Forsvarsmaður telur gagnrýnina byggjast á misskilningi frekar en staðreyndum. Markaðssetning á gráu svæði Hátt í tuttugu næringarfræðingar sendu frá sér skoðanagrein í gær þar sem fjallað var um markaðssetningu fæðubótarefna fyrir börn. Þar er vísað til steinefnadrykks sem er nýr á markaði og ætlaður börnum. Nafns drykkjarins er hvergi getið, en líklega er vísað til Hydration Kids frá Happy Hydrate, sem kom á markað í september. Dögg Guðmundsdóttir, klínískur næringarfræðingur, segir markaðssetninguna á gráu svæði. „Um er að ræða fjölvítamín, eins og þetta er markaðssett, en þetta inniheldur til dæmis salt. Þó svo að það sé ekki mikið er þegar mikil neysla á salti í mataræðinu. Það safnast saman þegar saman kemur, þannig að lítið getur verið mikil viðbót. Eins eru vítamín í þessu sem gögnin sýna okkur að börn þurfa ekki á að halda, nema að um sé að ræða einhæft mataræði.“ Drykkurinn er sagður fyrir börn fjögurra ára og eldri. Á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að hann auki vökvastuðning, sé tannvænn valkostur og hollari en hefðbundnir djús- og gosdrykkir. Rangfærslur í innihaldslýsingu og börn notuð í markaðssetningu Dögg setur spurningarmerki við þessar staðhæfingar og segir margar rangfærslur í innihaldslýsingu. Til að mynda sé hitaeiningafjöldi og hlutfall vítamína ekki rétt, auk þess sem drykkurinn innihaldi sætuefni en sé markaðssettur án sætuefna. Þá sé áhyggjuefni hvernig drykkurinn er markaðssettur á samfélagsmiðlum, þá sér í lagi af hálfu áhrifavalda. „Okkur finnst þetta mjög alvarlegt því þarna er verið að nota börn í markaðssetningu og þetta er mikið markaðssett af áhrifavöldum, sem augljóslega er ekki beint lagt línurnar um hvað má og hvað má ekki. Og það eru lög hvað varðar markaðssetningu á matvælum og öðru til barna sem þarf að hafa í huga.“ Hvetur fyrirtæki til að vanda betur til verka Dögg segir mikilvægt að fyrirtæki sem framleiði fæðubótaefni vandi betur til verka. Þá hvetur hún foreldra til að vera á verði og láta markaðssetningu á samfélagsmiðlum ekki blekkja sig. „Og í raun og veru að kynna sér vörur vel, áður en þær eru prófaðar. Því þetta varðar börnin okkar og þau treysta okkur til að velja rétt. Og kynna sér vöruna út frá þörf en ekki hvað er verið að reyna að selja þeim.“ Slíka fæðubót fyrir börn eigi ekki að nota nema í ítrustu neyð. „Þetta er alls ekki ráðlagt til daglegrar neyslu. Það er ekki nema að um sé að ræða einhvers konar sjúkdómsástand, eins og uppköst eða niðurgang eða gríðarlega mikinn svita, mikla hreyfingu eða verið í miklum hita sem þetta gæti gagnast börnum,“ segir Dögg. „Eina fæðubótaefnið sem við vitum að íslensk börn þurfa á að halda til viðbótar við gott mataræði er D-vítamín sem vill oft gleymast.“ Fagnar allri gagnrýni Arnar Gauti Arnarsson, forsvarsmaður Happy Hydrate, segist fagna allri gagnrýni. Hún byggi þó á misskilningi fremur en staðreyndum. „Mér finnst umfjöllunin búin að snúast út í að þetta sé, þetta er náttúrlega merkt sem fæðubótarefni, þannig þetta á ekki að bjarga þér eða gera neitt fyrir þig. Þú þarft þetta ekki. En þetta getur verið góð viðbót fyrir krakka sem eru kannski að æfa mikið,“ segir Arnar Gauti. „Þetta er markaðssett af foreldrum og þau taka valið fyrir krakkana. Þarf krakkinn minn á þessu að halda? Þetta er engin töfralausn, en þetta er hollari kosturinn.“ Mikil eftirspurn frá foreldrum Arnar Geir segir vöruna setta á markað vegna skýrrar eftirspurnar frá foreldrum. „Hugmyndin er sú að foreldrar hafi fleiri valkosti. Og margir notendur Happy Hydrate spurðu sérstaklega um útgáfu sem hentaði krökkum.“ Arnar Gauti segir að varan hafi verið unnin í nánu samstarfi við þýskan framleiðanda sem hafi áratuga reynslu af framleiðslu á næringarvörum og fæðubótaefnum fyrir alla aldurshópa. Hráefni og hlutföll þeirra byggi á evrópskum næringarviðmiðum. Þá hafi öryggi og hlutfall næringarefna verið staðfest af næringarfræðingum framleiðanda. „Markaðssetningin, við stöndum við hana. Og innihaldsefnin, þau eru öll hárrétt hjá okkur, okkar megin. Næringarfræðingarnir okkar töldu þetta vera bestu lausnina.“