Varar Moldóvu við að sýna Rússum fjandskap
Dmítríj Peskov, fjölmiðlafulltrúi ríkisstjórnar Rússlands, varaði Moldóvu við því að sýna Rússlandi fjandskap á sunnudaginn. Hann ýjaði að því að ef moldóvsk stjórnvöld héldu áfram á sömu braut yrðu afleiðingarnar í Moldóvu svipaðar og í Úkraínu. Flokkur aðgerða og samstöðu (PAS), sem vill leiða Moldóvu inn í Evrópusambandið, vann afgerandi sigur í þingkosningum í lok september. Í aðdraganda kosninganna hafði Maia Sandu forseti Moldóvu varað við að Rússar stunduðu markvissa undirróðursstarfsemi til að hafa áhrif á niðurstöðuna. Í síðustu viku samþykktu moldóvsk stjórnvöld síðan nýja áætlun í varnarmálum þar sem Rússland var skilgreint sem helsta öryggisógnin gegn Moldóvu. Í áætluninni var einnig varað við möguleikanum á að innrásarstríð Rússa í Úkraínu kunni að teygja anga sína til Moldóvu. Áréttað var í áætluninni að moldóvski herinn skyldi hafa meginreglur um „hlutleysi og eingöngu varnarhlutverk“ að leiðarljósi við uppbyggingu sína. „Þetta er áframhald á fremur herskárri línu gegn landinu okkar, óvinsamlegri línu,“ hafði rússneski ríkismiðillinn TASS eftir Peskov. „Núverandi leiðtogar Moldóvu eru, að okkar mati, að gera alvarleg mistök. Þeir halda að sú stefna að efla sambandið við Evrópu feli í sér algeran fjandskap gegn Rússlandi. Eitt ríki hefur þegar gert þessi mistök. Þau leiddu ekki til neins góðs fyrir þetta eina ríki.“