Nýr forseti vill að Rússar framselji Assad

Nýr forseti vill að Rússar framselji Assad

Ahmed al-Sharaa, forseti í bráðabirgðastjórn Sýrlands, vill að Rússar framselji Bashar al-Assad, fyrrverandi einræðisherra landsins. Þessu ætlar hann að koma á framfæri í dag þegar hann fer í sína fyrstu opinberu heimsókn til Rússlands. Að sögn ónafngreinds embættismanns, sem AFP fréttastofan ræddi við, ætlar al-Sharaa að fara þess á leit við Rússa að þeir afhendi alla þá sem tengjast stríðsglæpum í Sýrlandi. Bashar al-Assad og Hafez faðir hans stjórnuðu Sýrlandi harðri hendi um áratugaskeið. Syninum var steypt af stóli í desember eftir áralangt borgarastríð. Hann flýði þá til Rússlands og hefur verið þar í útlegð. Nýi bráðabirgðaforsetinn kom til Moskvu í dag. Hann ræðir við Vladimír Pútín um samskipti ríkjanna og sameiginlega hagsmuni þeirra í heimshlutanum.

„Hvað var það sem þessar konur gerðu?“

„Hvað var það sem þessar konur gerðu?“

„Hvað var það sem þessar konur gerðu, sem voru á settinu á túr?“ spurði Steiney Skúladóttir í Vikunni með Gísla Marteini á föstudagskvöld. Steiney var gestur í þættinum ásamt Baltasar Kormáki og Guðmundi Benediktssyni. Horfðu á brot úr þættinum hér fyrir ofan. Steiney sló á létta strengi þegar rætt var um ummæli leikstjórans Baldvins á Rás 2, þar sem hann nefndi skapstyggar konur á túr, þegar rætt var um mögulegar uppákomur á tökustað. Baldvin viðurkenndi í kjölfarið að ummælin hafi verið gamaldags og hallærisleg. „Voru þær með hníf? Neituðu þær að vera í buxum og blæddu yfir allt settið?“ spurði Steiney lauflétt við góðar undirtektir. Horfðu á Vikuna með Gísla Marteini í Spilara RÚV.