Hættir sem landsliðsþjálfari
Sigurbjörn hefur um árabil verið einn þekktasti hestamaður landsins. Hann er eini knapinn sem hefur verið kjörinn íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna en þá tign hlaut hann árið 1993. Þá var hann í upphafi þessa árs tekinn inn í Heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Í tilkynningu Sigurbjörns á vefsíðu Landssambands hestamannafélaga (LH) segist hann líta stoltur um öxl eftir að hafa verið landsliðsþjálfari frá árinu 2017, ráðist í mikla endurskoðun á öllu landsliðs- og afreksstarfi LH með það fyrir augum að bæta árangur og umgjörð landsliðsins. Sameiginleg ákvörðun að leiðir skilji „Nú stendur yfir vinna hjá LH um framtíðarsýn í afreks- og landslilðsmálum LH sem fela m.a. í sér breytingar á starfi landsliðsþjálfara. Eftir að hafa farið yfir stöðuna með formanni LH og landsliðsnefndar er það sameiginleg ákvörðun okkar að leiðir skilji og nýtt fólk verði fengið til að halda utan um landsliðsstarfið í nýrri mynd,“ segir Sigurbjörn meðal annars í tilkynningu sinni. „Ég lít stoltur um öxl og vil af þessu tilefni þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með öll þessi ár, fyrir samstarfið og frábær samskipti. Jafnframt óska nýju fólki velfarnaðar og góðs gengis í þessu krefjandi en skemmtilega verkefni. “