Óánægja með framgöngu borgarinnar

Óánægja með framgöngu borgarinnar

Fulltrúar stærstu fasteignafélaga landsins komu saman á fundi með borgarstjóra Reykjavíkur nýverið, ásamt fulltrúa borgarinnar í skipulagsráði. Fasteignafélögunum ásamt hópi þróunar- og uppbyggingaraðils var boðið til þess að ræða borgarskipulag

Utanríkisráðherra átti fund með formanni hermálanefndar NATÓ um öryggis- og varnarmál á norðurslóðum

Utanríkisráðherra átti fund með formanni hermálanefndar NATÓ um öryggis- og varnarmál á norðurslóðum

Öryggis- og varnarmál á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum voru efst á baugi fundar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og Guiseppe Cavo Dragone, formanns hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins, í gær. Þau ræddu einnig aukið framlag Íslands innan bandalagsins og stuðning við varnir Úkraínu gegn innrás Rússa, að því er segir á vef Stjórnarráðsins . Ítalski aðmírállinn Dragone er æðsti embættismaður hermálastarfsliðs NATÓ og ráðgjafi framkvæmdastjórans Marks Rutte. Hann er einnig talsmaður bandalagsins um hernaðarleg málefni. Í þessari fyrstu heimsókn Dragones til Íslands munu embættismenn utanríkisráðuneytisins kynna honum varnarbúnað Íslands. Hann mun einnig ávarpa Hringborð norðurslóða í Hörpu. Dragne stýrir starfi hermálanefndar sem veitir fastaráði bandalagsins ráðgjöf um hvernig best megi mæta helstu öryggisáskorunum á hverjum tíma. Í hermálanefndinni eiga sæti hermálafulltrúar úr fastanefndum bandalagsríkjanna 32, þar á meðal borgaralegur fulltrúi Íslands.

Trump fyrirskipar umsvifalausa frelsun fyrrverandi þingmanns

Trump fyrirskipar umsvifalausa frelsun fyrrverandi þingmanns

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur mildað refsingu Georges Santos, Repúblikanaþingmannsins fyrrverandi, sem í apríl var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir fjársvik og auðkennisþjófnað. Santos hefur setið í fangelsi síðan í júlí og forsetinn krefst þess að honum verði umsvifalaust sleppt. „George hefur setið í einangrun löngum stundum og mátt þola hræðilega illa meðferð,“ skrifaði Donald Trump í löngum pósti á Truth Social. Því hafi hann undirritað erindisbréf um refsilækkun Santosar, sem ætíð hafi staðið með Repúblikanaflokknum af hugrekki og staðfestu. Mildun refsingar er ólík náðun að því leyti að upphaflegur dómur stendur en afplánun er stytt. Santos viðurkenndi að hafa stolið auðkenni fjárhagslegra bakhjarla sinna, notað greiðslukort þeirra, fært peninga í kosningasjóð sinn í leyfisleysi, dregið sér fé úr sjóðnum og nýtt til einkanota. Rannsókn siðanefndar þingsins leiddi í ljós að féð hafi hann meðal annars notað til að greiða fyrir botox-meðferðir, aðgang að klámsíðum, dýr ferðalög og ítalskar munaðarvörur. Santos var rekinn úr fulltrúadeild þingsins í árslok 2023, ári eftir að hann náði kjöri, fyrir að ljúga til um starfsferil sinn, menntun, trú og jafnvel hvað hann héti. Hann varð þá þriðji þingmaðurinn til að verða rekinn úr deildinni frá lokum borgarastyrjaldarinnar. Þau örlög eru einkum ætluð föðurlandssvikurum og dæmdum glæpamönnum.

Friðarverðlaunahafi sagður hafa hrósað staðfestu forsætisráðherra Ísraels

Friðarverðlaunahafi sagður hafa hrósað staðfestu forsætisráðherra Ísraels

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels segir að venesúelski stjórnarandstæðingurinn og friðarverðlaunahafinn Maria Corina Machado hafi í símtali fagnað baráttu hans gegn alræðisöflum. Machado er í færslu ráðuneytisins á samfélagsmiðlinum X sögð hafa fagnað einbeittum ákvörðunum og aðgerðum Netanjahús í Gaza-stríðinu og því samkomulagi sem náðist um frelsun gísla Hamas. Maria Corina Machado sjálf nefndi hvorki Gaza né Ísrael í varfærnislega orðaðri yfirlýsingu á X. Hún sagði íbúa Venesúela vita að mikið hugrekki, styrk og siðprýði þurfi til standa í vegi fyrir að alræðisöfl nái fótfestu. „Rétt eins og við berjumst fyrir frelsi og lýðræði í Venesúela verðskulda allar þjóðir Mið-Austurlanda framtíð byggða á myndugleika, sanngirni og von - ekki ótta,“ bætti Machado við. Hún gagnrýndi Íransstjórn harðlega, sem styddi alræðisstjórn Nicolasar Maduro og veitti hryðjuverkasamtökum fulltingi, Hamas, Hezbollah og Húta í Jemen. Gustavo Petro Kólumbíuforseti hefur gagnrýnt Netanjahú harðlega og lýsti í síðustu viku efasemdum um réttmæti þess að veita Machado friðarverðlaun Nóbels. Hún hafi lengi leitað stuðnings Netanjahús og Ísraelsstjórnar við að koma Maduro frá völdum. Venesúela hefur ekki átt í stjórnmálasambandi við Ísrael síðan 2008 þegar Hugo Chavez, forveri Maduros, sleit því í mótmælaskyni við stríðið sem þá geisaði á Gaza.

Íbúar strandbæja fluttir brott vegna hvassviðris og ágangs sjávar

Íbúar strandbæja fluttir brott vegna hvassviðris og ágangs sjávar

Á annað þúsund íbúa strandbæja í Alaska í Bandaríkjunum hafa verið fluttir brott flugleiðis í vikunni. Mary Miller, yfirmaður þyrlusveitar Bandaríkjahers, gefur barni vatn að drekka.AP/Alaska National Guard / Joseph Moon Mikil hætta hefur skapast af völdum leifa fellibylsins Halong með hárri sjávarstöðu og miklum öldugangi auk þess sem bálhvasst hefur verið. Varaforsetinn JD Vance sagði í færslu á Truth Social að þeir Donald Trump forseti fylgdust vel með framvindu mála. Þeir gerðu allt sem í þeirra valdi stæði að veita íbúunum þá hjálp sem þurfi í samvinnu við yfirvöld í Alaska.

Stjórnin vill að Hæstiréttur aflétti banni við beitingu þjóðvarðliðs í Chicago

Stjórnin vill að Hæstiréttur aflétti banni við beitingu þjóðvarðliðs í Chicago

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur leitað fulltingis Hæstaréttar við að aflétta lögbannsúrskurði áfrýjunardómstóls gegn beitingu þjóðvarðliðs í Chicago, þriðju stærstu borg landsins. Það var gert að kröfu borgaryfirvalda og Illinois-ríkis. Donald Trump forseti staðhæfir að liðsins sé þörf til að berjast gegn glæpum og vernda fulltrúa innflytjendastofnunar og opinberar byggingar í borginni. Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnin leitar til hæstaréttar í slíku máli en þar sitja sex íhaldssamir dómarar á móti þremur frjálslyndari. Áfrýjunardómstóll staðfesti lögbann héraðsdómara á fimmtudag með þeim rökum að stjórnvöld hefðu ekki sýnt fram á að það neyðarástand ríkti í Chicago sem réttlætti beitingu herliðs. Hvorki væru merki um uppreisn né uppreisnartilraun í Illinois, þrátt fyrir róstur, sagði í úrskurðinum. John Sauer ríkislögmaður segir fulltrúa innflytjendastofnunar búa við stanslausa ofbeldisógn, að dómstóllinn fótumtræði valdmörk forsetans og ógni að þarflausu öryggi opinberra starfsmanna og bygginga. Stjórnvöld í Oregon hafa einnig krafist lögbanns á að þjóðvarðliðinu verði beitt í borginni Portland, þar sem forsetinn segir allt standa í ljósum logum vegna mótmæla.

Hamas afhenti Ísraelmönnum eitt lík til viðbótar

Hamas afhenti Ísraelmönnum eitt lík til viðbótar

Hamas-hreyfingin hefur afhent Ísraelum líkamsleifar eins gísls til viðbótar, með milligöngu Rauða krossins. Tilkynning þessa efnis barst frá skrifstofu Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra í kvöld þar sem sagði að réttarmeinafræðingar bæru kennsl á hinn látna. Hamas hefur þegar sleppt þeim tuttugu gíslum sem voru á lífi ásamt níu af tuttugu og átta líkum Ísraelsmanna í haldi þeirra. Ísraelsmenn slepptu á móti næstum tvö þúsund Palestínumönnum úr fangelsum og gerðu hlé á hernaðargerðum á Gaza. Netanjahú hefur sagst staðráðinn í að tryggja að Hamas afhendi alla gísla samkvæmt ákvæðum vopnahléssamkomulagsins og varnarmálaráðherrann Israel Katz hótaði að leggja til atlögu að Hamas að nýju bregðist þeir skyldum sínum. Forvígismenn Hamas hafa sagt nær ógjörning að finna lík undir rústum húsa og í hrundum neðanjarðargöngum á Gaza. Ghazi Hamad, háttsettur Hamas-liði, sagði Katz beita óþolandi þrýstingi með hótunum sínum. Leitin að líkunum væri flókin og tímafrek en Hamas stæði við sitt. Rústabjörgunarsveit frá Tyrklandi bíður enn leyfis frá ísraelskum stjórnvöldum til að fara inn á Gaza, óljóst er hvenær það fæst, mögulega á sunnudag samkvæmt heimildarmönnum AFP-fréttaveitunnar innan Hamas. AFP hefur eftir tyrkneskum embættismanni að hlutverk sveitarinnar sé bæði að finna lík gíslanna og Palestínumanna undir rústunum. Almannavarnir á Gaza segja að hátt í þrjú hundruð lík Palestínumanna hafi þegar verið grafin undan rústunum. Fulltrúi Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna segir að þegar hafi 3.000 tonn af matvælum verið flutt inn á Gaza en áréttar að langan tíma taki að snúa hungursneyðinni þar við. Opna þurfi allar leiðir inn á svæðið til að flýta fyrir því.

Bubbi sendir út neyðar­kall

Bubbi sendir út neyðar­kall

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens sendir út neyðarkall til stjórnvalda og gagnrýnir þau harðlega fyrir að hafa ekki gætt nógu vel að íslenskunni sem sé nú komin í ræsið. Hann óttast að tungumálið verði ekki svipur hjá sjón eftir aðeins nokkra áratugi.

Treystir á vilja Trumps að binda enda á stríðið

Treystir á vilja Trumps að binda enda á stríðið

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, fundaði með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í dag. Zelensky segir fundinn hafa verið langan og afkastamikinn. Á fundinum ræddu forsetarnir meðal annars afhendingu langdrægra Tomahawk-eldflauga. Eftir fundinn sagði Zelensky í samtali við blaðamenn að hann myndi ekki tjá sig um hver niðurstaða þess samtals væri en segir það skýrt að Bandaríkin vilji ekki að stríðið stigmagnist. Hann bindur þó vonir við að Bandaríkin muni taka við drónum í skiptum fyrir langdrægar Tomahawk-flaugar. Zelensky segir umræður um eftirgjöf á landsvæðum viðkvæmar og flóknar vegna þess að Rússar hyggist ekki ætla að gefa eftir nein af sínum landsvæðum ef kæmi til vopnahlés. Trump ræddi við Vladimír Pútín Rússlandsforseta í síma í gær og segir hann vilja binda enda á stríðið. Forsetarnir tveir hafa ákveðið að mæla sé mót í Búdapest á næstu vikum. Zelensky mun ekki vera viðstaddur fundinn og telur Trump ólíklegt að Putin og Zelensky muni funda í bráð.