Varaþingkona Miðflokksins fordæmir orð landsfundarfulltrúa
Ágústa Ágústsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins, fer hörðum orðum um framgöngu landsfundarfulltrúans Elds Smára Kristinssonar og segir sérstakt að hann skuli ráðast gegn tilveru trans fólks með því ótrúlega hatri sem hann er þekktur fyrir. Þetta kemur fram í færslu á Facebook. Hún skorar á undirfélög flokksins að láta sig málið varða. Tilefnið eru ummæli sem Eldur lét falla að loknu landsþingi flokksins um síðustu helgi. Þar kallaði hann Önnu Margréti Grétarsdóttur, félaga í flokknum, „kyngervil“ en Anna Margrét er trans. Sagði hann að íslensk stjórnmálasaga hefði verið skrifuð á þinginu og setti í samhengi við andúð í garð Önnu Margrétar. Anna Margrét sagði sjálf í viðtali við Vísi á dögunum að hún hefði mætt fordómum tveggja kvenna á þinginu; önnur þeirra hefði sagt henni að trans konur væru skömm við kvenþjóðina. Ágústa segir að þessar tvær konur hafi orðið sjálfri sér til skammar með framkomu sinni og skorti á manngæsku. Þá spyr hún hvort flokkurinn ætli að leyfa mannhatri að breiða úr sér innan flokksins mikið lengur og skorar á flokksmenn að tjá sig um málið.