Ætla að hægja á eða stöðva flæði neyðaraðstoðar

Ætla að hægja á eða stöðva flæði neyðaraðstoðar

Ráðamenn í Ísrael ætla brátt að hægja á eða stöðva alfarið flæði neyðaraðstoðar til tiltekinna svæða á norðurhluta Gasastrandarinnar, þar sem til stendur að fara í umfangsmikla hernaðaraðgerð í Gasaborg. Það er í kjölfar þess að Ísraelar hættu á föstudaginn að gera hlé á árásum til að auðvelda deilingu birgða til fólks sem heldur til í borginni.

Álag á aðstandendur eitt af því sem flýtir fyrir flutningi aldraðra á hjúkrunarheimili

Álag á aðstandendur eitt af því sem flýtir fyrir flutningi aldraðra á hjúkrunarheimili

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að einn af hverjum fimm jarðarbúum verði 60 ára eða eldri árið 2050. Fólk eignast færri börn, lifir lengur og meiri ábyrgð flyst á færri afkomendur og ættingja. Inga Valgerður Kristinsdóttir hjúkrunarfræðingur bar saman umönnunarbyrði á Íslandi, Finnlandi, Belgíu, Þýskalandi og Ítalíu í doktorsverkefni sínu í hjúkrunarfræði. Fjallað var um rannsóknina í nýjasta tölublaði Sjúkraliðans. Inga Valgerður vildi meðal annars kanna hvers vegna aðstandendur aldraðra á Íslandi fundu fyrir meiri umönnunarbyrði en aðstandendur í hinum löndunum. Inga hefur starfað í heimahjúkrun frá 1997 og vildi athuga hvort hægt væri að ná betri árangri og gera fólki kleift að búa lengur á eigin heimili, jafnvel þótt það hefði mikla þörf fyrir aðstoð. Doktorsverkefni hennar tók til á þriðja þúsund manns, 65 ára og eldri, sem fengu heimahjúkrun og heimaþjónustu. „Alla vega kom í ljós að þeir einstaklingar sem lenda í þessu úrtaki, eru með betri færni hér á landi en í þessum samanburðarlöndum. Þannig að það var kannski þá staðfest það sem oft hefur verið haldið fram,“ segir Inga og vísar til fullyrðinga um færni aldraðra hér á landi. Hún segir að það sé svo sérstakt rannsóknarefni hvað hin löndin gera öðruvísi. Umönnunarbyrði meiri hér en í samanburðarlöndunum Inga segir að hærra hlutfall aðstandenda fyndi fyrir umönnunarbyrði hér en í hinum löndunum. Ólíkar hefðir geti skýrt þetta. Konur eru meirihluti aðstandenda í umönnun og mikil atvinnuþátttaka kvenna hér á landi kunni að hafa áhrif. Umönnunarbyrði, álag sem fylgir umönnun, er eitt af því sem getur spáð fyrir um hvort einstaklingur flytur á hjúkrunarheimili. Inga segir að tekið sé tillit til þess þegar metin er þörf á að flytja á hjúkrunarheimili þótt það sé ekki helsta ástæðan. Fleiri klukkustundir eru veittar í aðstoð frá opinbera kerfinu, það er heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu, í samanburðarlöndunum en hér. Kerfin eru ólík en stundum hefur fjölgað í öllum löndunum. Inga telur fulla ástæðu til að endurtaka grunnrannsóknina til að fá nýrri upplýsingar. Fleiri fara á hjúkrunarheimili hér á landi Fleiri Íslendingar fara á hjúkrunarheimili en aldraðir í sambanburðarlöndunum. Á Íslandi eru þeir 18 prósent, í Finnlandi 13 prósent, í Belgíu 12 prósent og sjö prósent í Þýskalandi. Lægst var hlutfallið á Ítalíu. „Ég er ekki alveg með svarið við því af hverju þetta er en ég reyndi að finna forspárgildi.“ Hvort eitthvað í einkennum þess aldraða geti spáð fyrir um að hann flytji á hjúkrunarheimili. „Og þá var greinilegt í íslensku gögnunum að eitt af forspárgildunum var umönnunarbyrði. Það var eitt af fleiri atriðum sem spila inn í það af hverju einstaklingar flytja á hjúkrunarheimili.“ Íslensku gögnin tóku til nánast allra sem fengu heimahjúkrun á rannsóknartímanum. „Þannig að íslensku gögnin eiga að sýna okkur nokkuð raunsanna mynd af því hvernig þetta er hjá okkur. Það er einmitt þessi umönnunarbyrði sem skoraði hátt í því af hverju fólk flutti. En svo voru það líka auknar líkur á þunglyndi og þessi formlega aðstoð af því hún var svona lítil þá var hún líka að spá fyrir um af hverju fólk var að flytja á hjúkrunarheimili.“ Lengur heima með markvissari þjónustu Inga telur að hægt væri að hugsa þjónustuna upp á nýtt. Reykjavík bjóði til dæmis fjarvöktun í skjáheimsóknum sem hentar þeim sem geta til dæmis mælt blóðþrýsting sjálfir. Þá sé mikil samvinna við Landspítala í að fylgjast með fólki með hjartabilun og veita þjónustu heima í stað þess að fólk fari á bráðamóttöku. Fleiri fagstéttir komi að heimaþjónustu og þannig sé hægt að stytta boðleiðir og bregðast við áður en allt fer á versta veg. „Til dæmis, það er öldrunarlæknir hjá heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Það gerir öll viðbrögð miklu styttri. Eins þessi heimaspítali á Selfossi og SELMU-teymið í Reykjavík . Það eru allar boðleiðir styttri, það er hægt að bregðast við fyrr, áður en einstaklingurinn fer í versta ástand.“ „Ég held að þarna sé sóknarfæri. Að við kortleggjum einstaklingana sem eru veikastir heima og hvernig við ætlum að bregðast við: Þegar þetta gerist þá gerum við þetta svona. Getum bara strax byrjað meðferð og þá jafnvel þarf einstaklingurinn ekki að fara inn á bráðamóttöku. Ef við höfum mannafla og fagfólkið sem sinnir einstaklingunum heima þá getum við alveg gert helling.“

„Ég man þetta ljóslifandi af því að þetta breytti mér pínu“

„Ég man þetta ljóslifandi af því að þetta breytti mér pínu“

Axel Ingi Árnason hefur komið sem stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf sem tónlistarmaður, tónlistarstjóri og kórstjóri. Nú er hann tekinn við sem forstöðumaður í Salnum í Kópavogi og nýtur sín vel í starfi. Felix Bergsson ræddi við Axel Inga í Fram og til baka á Rás 2 þar sem Axel Ingi sagði frá söngleikjum sem hafa haft áhrif á líf hans. Söngleikir séu fjölskyldunni mjög mikilvægir. „Ég og eiginmaður minn, Jóhann Frímann sem ég er svo heppinn að vera giftur, við eigum söngleiki rosa mikið saman.“ Þeir fara reglulega til útlanda að sjá sýningar og sonur þeirra, Víglundur, hefur tekið miklu ástfóstri við forminu líka. „Það er mjög fyndið þegar hann er farinn að syngja hástöfum með söngleikjum.“ Sendu unglingana eina á söngleik í London Axel Ingi ólst upp í Eyjarfjarðasveit rétt fyrir utan Akureyri. „Þetta var algjör gjöf, að fá að alast upp úti í sveit. Ég blóta því stundum að ég sé að ala son minn upp í borg óttans en það eru aðrir kostir sem fylgja því,“ segir Axel Ingi sem býr nú í Reykjavík. Það var í æsku sem ást Axels Inga kviknaði á söngleikjum og þá sérstaklega Phantom of the Opera sem hann sá í London á Englandi árið 2005. Hann var fjölskylduferð, með foreldrum sínum og litlu systur, sumarið fyrir menntaskóla. „Ég var algjört Disney-barn og elskaði Disney-söngleikina. Það var borðleggjandi að þegar við vorum í London þurfti ég að fara og sjá söngleik. Mamma og pabbi nenntu engan veginn að fara á eitthvað svona sjó.“ Foreldrar hans keyptu því miða fyrir þau systkinin, sem voru 15 og 12 ára, á Phantom of the Opera í leikhúsi drottningarinnar sem tók 1200 manns. „Þegar ég hugsa til baka þá dáist ég svo mikið að þessu, ég myndi ekki senda Víglund einan í Krónuna og hann er sjö ára.“ Minningin er enn ljóslifandi í huga hans. „Af því að þetta breytti mér pínu.“ Þau sátu á öðrum svölum og yfir salnum tróndi kristalsljósakróna. „Svo byrjar músíkin og ég held að ég hafi ekki dregið andann fyrr en hléið byrjaði. Í síðasta atriðinu fyrir hlé þá kviknar í leikhúsinu á sviðinu. Allt er í volli og ljósakrónin hrynur aðeins niður, svo sveiflast hún niður úr loftinu og lendir á sviðinu með braki og bramli. Og tjaldið niður.“ Axel Ingi segir engan hafa klappað, fólk stóð á öndinni. „Svo byrja allir að öskra. Þetta augnablik er það besta sem ég veit.“ Á kannski ekki heima á sviðinu heldur við píanóið Hann byrjaði í tónlistarnámi þegar hann var fimm ára, og var þá þegar farinn að spila á píanó. Stuttu síðar lærði hann svo að spila á klassískan kontrabassa. Hann segist fljótt hafa verið farinn að semja eigin tónlist og verið svo lánsamur að píanókennari hans leyfði honum að spila kvikmyndatónlist inn á milli og kenndi honum hljóma svo áhugi hans héldist á tónlistarnáminu. Í Menntaskólanum á Akureyri var hann í stjórn leikfélagsins þegar þau ákváðu að setja upp Kabarett. Þá var Axel Ingi tónlistarstjóri og útsetti músíkina fyrir hljómsveitina sem og hann fór með hlutverk Cliff á sviði. „Þar held ég að hafi komið svolítið í ljós að minn staður í leikhúsinu sé kannski ekki á sviðinu heldur frekar úti í sal eða á bak við píanóið.“ Nennti ekki hringja í fjölskylduna og segja þeim að Axel Ingi væri samkynhneigður Axel Ingi kom út úr skápnum 18 ára. „Ég kem út úr skápnum og eignast þá bara minn fyrsta kærasta. Við vorum saman í eitt ár og það var bara ótrúlega gaman.“ Það hafi verið tiltölulega lítið mál að koma út. „Ég kallaði mömmu inn á rúmstokk til mín og sagði henni frá þessu. Ég nennti ekki að gera meira mál úr þessu svo ég spurði hvort hún væri ekki til í að segja pabba þetta.“ Hún tók hlutverki sínu sem móðir samkynhneigðs manns mjög alvarlega og tilkynnti systkinum sínum og móður fréttirnar. Svo bað hún föður hans að gera slíkt hið sama sín megin. „Svo löngu seinna þá er afmæli í föðurfjölskyldunni og ég mæti með kærastann minn. Þá kemur systir pabba upp að mömmu og spyr: Þessi maður sem er með Axel, er þetta einhver vinur hans? Er Axel hommi?“ „Það sem er svo fallegt við þetta er að pabbi er ekkert mikið fyrir að tala að óþörfu. Aðspurður sagði hann bara að honum fyndist þetta ekki skipta neinu máli, þau myndu vita þetta þegar hann eignaðist kærasta og nú vissu þau þetta.“ Hann hafi einfaldlega ekki nennt að taka upp símann til að segja fólki frá þessu. Fenginn inn á fölskum forsendum Söngleikurinn Góðan daginn faggi með Bjarna Snæbjörnssyni hefur slegið í gegn, bæði á Íslandi og utan landsteinanna. Axel Ingi samdi tónlistina og segir að reynslan sé engri lík. „Þetta var ævintýri og þvílík gjöf að fá að vera með í því með Bjarna.“ Bjarni og Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri og besta vinkona Axels Inga, höfðu unnið eitthvað saman áður og tekist vel til vina. Þeir Bjarni þekktust þó ekkert. „Svo þegar þau fara inn í þessa vegferð og það er ljóst að þetta vildi verða söngleikur þá tala þau við mig.“ Hann segir þau þó hafa fengið sig inn á kolröngum forsendum. „Þau lugu beinlínis að mér,“ segir hann og hlær. „Upprunalega átti þetta að vera fyndinn og hress kabarett. Hann ætlaði að vera í dragi og þetta átti að vera stúdía um hinseginleikann. Nema svo fær hann taugaáfall í ferlinu og sýningin fær á sig miklu dramatískari tón og verður það sem hún er í dag.“ „Þegar ég kem inn þá er ég bara að fara að semja eitthvað grín og djók. En svo verður þetta miklu alvarlegra og skemmtilegra stykki út af þessari atburðarás – sem er í rauninni hjartað í sýningunni.“ Axel Ingi er með Bjarna á sviðinu allan tímann. „Ég er þarna til staðar fyrir hann og er bara mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að vera við hliðina á honum. Því þetta var oft, og sérstaklega fyrst, erfitt fyrir hann og fólkið í salnum líka. Það voru ekkasogin stundum í salnum. Það er verið að gera upp erfiða hluti í þessari sýningu.“ Verkið var frumsýnt á Hinsegin dögum 2021 og var sýnt í Þjóðleikhúskjallaranum mun lengur en nokkurt þeirra bjóst við. Upphaflega voru aðeins átta sýningar settar á dagskrá. Eftir það fóru þau um landið með verkið og sýndu unglingum. Svo fóru þau aftur í kjallarann og héldu lokasýningu á Stóra sviðinu ásamt söngleikjakór Axels Inga, Viðlagi. „Það var alveg stórkostlegt. Þá hélt ég að það væri kominn punktur eftir sýninguna.“ Það reyndist ekki vera því þá þýddu þau verkið yfir á ensku og fóru með það til Skotlands á Edingburgh Fringe þar sem þau sýndu 28 daga af 30. Því mælir Axel Ingi ekki með fyrir geðheilsuna, þó að þetta hafi verið skemmtileg og gefandi upplifun. Sumarið eftir fóru þau til Færeyja og þá hélt Axel Ingi að kominn væri annar lokapunktur. En þá voru þeir fengnir inn í Afturámóti í Háskólabíói í sumar. Nú er hópurinn á leið inn í Borgarleikhúsið með Skammarþríhyrninginn, nýtt verk um dystópíska framtíð þar sem hinseginleikinn hefur verið þurrkaður út. Gjöf inn í lífið að kynnast þessu fólki Undanfarin ár hefur Axel Ingi verið í kórnum Viðlagi sem hann stofnaði eftir að honum var sagt upp sem flugþjóni til sex ára í heimsfaraldrinum. „Mér leiddist svo mikið að ég fór í tvöfalt háskólanám; menningarstjórnun á Bifröst og ritlist í HÍ. Ég hugsaði að það væru samt enn þá einhverjir klukkutímar þarna á milli. Ég var líka með tveggja ára barn á þessum tíma.“ Hann ákvað því að stofna söngleikjakór, hélt prufur og tók inn 20 manns til að byrja með. Allt fyrsta árið hittust þau aðeins í gegnum fjarskiptabúnað. Síðan hafa þau haldið nokkra tónleika og voru síðan með sýninguna Við erum hér í Tjarnarbíói í fyrra við góðar viðtökur. „Þessi hópur er ótrúlegur og þetta hefur verið svo mikil gjöf inn í mitt líf að hafa fengið að kynnast þessu fólki öllu.“ Í bígerð er heill söngleikur og fleiri tónleikar. Axel Ingi hefur alltaf elskað söngleiki og rifjar upp áhrif þeirra á líf sitt, sérstaklega sem ungur maður. Hann kom út úr skápnum þegar hann var 18 ára. Föður hans fannst það ekki skipta neinu máli og nennti ekki að láta neinn í fjölskyldunni vita. Rætt var við Axel Inga Árnason í Fram og til baka á Rás 2. Viðtalið má finna í spilaranum hér fyrir ofan.

Hafmeyjan með stóru brjóstin

Hafmeyjan með stóru brjóstin

Ævintýrið um litlu hafmeyjuna, Den lille Havfrue, skrifaði H.C. Andersen árið 1837 og er meðal þekktustu verka höfundarins. Sagan hefur verið gefin út í fjölmörgum löndum og sömuleiðis alloft verið kvikmynduð.  Árið 1909 var frumsýndur á Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn ballett, byggður á sögu H.C Andersen (1805 – 1875) um litlu hafmeyjuna. Aðalhlutverkið dansaði Ellen Price (1878 – 1968), sem...

Sólin skín skært suðvestanlands

Sólin skín skært suðvestanlands

Það er von á rólegu veðri í dag með norðaustan golu eða kalda. Búast má við súld eða rigningu með köflum norðan- og austanlands. Suðvestan til verður lengst af þurrt og milt og þar ætti sólin að skína skært langtímum saman, eins og það er orðað í veðurpistli morgunsins frá Veðurstofu Íslands. Það gætu þó myndast einhverjar síðdegisskúrir. Þær eru líklegri á morgun heldur en í dag. Hiti verður á bilinu 9 til 19 stig, hlýjast sunnan til. Í Vestur-Evrópu er aftur á móti leiðindaveður þessa dagana. Því veldur djúp og víðáttumikil lægð vestur af Írlandi.