Varaforseti segist alls ekki hafa ætlað að fá hjálp Bandaríkjanna við að víkja forstanum frá embætti
Delcy Rodriguez varaforseti Venesúela þvertekur fyrir að hafa leitað liðsinnis Bandaríkjanna við að steypa forseta landsins af stóli. Dagblaðið Miami Herald fullyrti að Rodriguez og bróðir hennar, þingforsetinn Jorge Rodriguez, hefðu sagt stjórnvöldum í Washington að þau væru betur til forystu fallin en Nicolas Maduro. Blaðið sagði systkinin hafa borið tvö tilboð undir Bandaríkjastjórn með aðstoð milligöngumanna frá Katar og með velþóknun Maduros. Uppgjafahershöfðingi var nefndur sem leiðtogi tímabundinnar ríkisstjórnar. „Falsfrétt“, segir varaforsetinn „Falsfrétt!“ skrifaði Delcy Rodriguez á samskiptamiðilinn Telegram og sagði frétt blaðsins enn eitt dæmið um sálfræðihernað gegn venesúelsku þjóðinni. Hún sagði þá sem slíkar fréttir flytja skorta allt siðferði og birti mynd af sér með Maduro forseta þar sem hún lýsti fullum stuðningi við hann. Bandaríkjastjórn sakar Maduro um að reka eiturlyfjahring frá forsetaskrifstofunni og hefur ekki viðurkennt sigur hans í forsetakosningum á síðasta ári. Þar hafi verið rangt haft við og Edmundo Gonzales Urrutia, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, réttkjörinn forseti. Bandaríkjaher hefur orðið minnst 27 að bana í árásum á fimm smábáta á Karíbahafi sem sagðir eru notaðir við fíkniefnasmygl. Donald Trump forseti gaf í skyn á miðvikudag að hann hefði heimilað leyniþjónustunni CIA að leggja til atlögu við Maduro á laun.