Dublin Fringe: Áhugaverð endurspeglun á því sem er efst á baugi hjá ungu listafólki í dag

Dublin Fringe: Áhugaverð endurspeglun á því sem er efst á baugi hjá ungu listafólki í dag

Katla Ársælsdóttir skrifar: Fringe-hátíðir eru haldnar um allan heim og sú frægasta og jafnframt elsta er sú sem haldin er í Edinborg. Ísland er ekki undanskilið og Reykjavík Fringe hefur verið haldin á sumrin í nokkur ár. Þar fá gestir að njóta fjölbreyttra sviðslista víða um borgina. Dublin Fringe Festival hefur verið haldið í núverandi mynd í þrjátíu ár en hátíðin var fyrst haldin 1980. Á þrjátíu ára starfsafmælinu var einkar mikið lagt upp úr hátíðinni. Hátíðahöldin spönnuðu rúmlega tvær vikur og rúmlega áttatíu sýningar voru settar upp undir formerkjum hátíðarinnar víðs vegar um borgina. Lagt var upp úr því að sýna ögrandi og framúrstefnuleg sviðsverk eftir unga höfunda. Verkin í ár voru fjölbreytt líkt og fyrri ár en ádeiluverk voru mjög áberandi, sérstaklega satírur og uppistand. Þá voru þó nokkur verk eftir höfunda og fyrir áhorfendur sem gjarnan sitja á hakanum í leikhúsheiminum, til að mynda innflytjendur og leikrit skrifuð með döff fólk í huga svo dæmi séu nefnd. Yfirskrift hátíðarinnar í ár var: Be Brave. Be Wild. Be Bold. Be Here eða Verið hugrökk, verið djörf, verið hér. Skipuleggjendur héldu því fram að hver einasti viðburður væri settur á svið til að kveikja í huga áhorfenda og setja óafmáanleg ummerki á sálina. Það var því ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. I would like to speak to your manager og Am I the Asshole? eru tvö verk af fjölmörgum sem slógu í gegn á hátíðinni í ár og var uppselt á allar sýningar. Holly Hughes skrifaði einleikinn I would like to speak to your manager, eða Ég vil gjarnan tala við yfirmann þinn á íslensku, og hún leikur einnig í sýningunni. Verkið er 40 mínútur og fjallar um þá uppgötvun Hughes að hún gæti verið hin svokallaða Karen. Karen er slangur um miðaldra konur sem gera óeðlilegar kröfur til fólks í þjónustustörfum og vilja þá oft tala við yfirmenn þeirra, eins og titill verksins gefur til kynna. Hugtakið er þó víðara en þetta. Þessi uppgötvun er Hughes erfið þar sem hún segist hafa aðhyllst frjálsan lífstíl, vera með neflokk, hafa sofið á gistiheimilum á ferðalögum sínum og verið grænkeri. Allt er þetta töluvert ólíkt lífstíl hinnar hefðbundnu Karenar. Hugmyndir Hughes um svokallaða Karen og hvernig slíkur hugsunarháttur læðist að manni óafvitandi eru mjög fyndnar og skemmtilegar en þó ekki frumlegar. Hún hefur háfleygar hugmyndir um að karenin sé misskilin og ekki svo slæm. Hún ber þær saman við karlmenn og veltir fyrir sér hvort þeir eru séðir í sama ljósi og konur? Eru karenar ef til vill bara konur sem hafa fengið sig fullsaddar af ákveðinni hegðun og yfirgangi? Að þær, eins og hún, séu að aflæra meðvirkni og séu mótefni við valdaleysi og gagnsleysi sem konur kunna að upplifa. Í lok sýningar var predikunartónninn einum of mikill að mati undirritaðrar, hún ber karenar saman við súffragettur fyrri tíma og segir að konur þurfi að vera óhræddar við að að fá stimpilinn karen. Það er margt skemmtilegt við sýninguna og ýmislegt sem Hughes talar um er áhrifaríkt og skemmtilegt. Frasar á borð við „in the name of freebee´s, upgrades and refunds, let us complain” fengu áhorfendur til að hlæja. Þetta er sýning sem margir geta hlegið að en hún þarf sterkari endi og gæti verið lengri að mati rýnanda. Önnur vinsæl sýning á hátíðinni í ár var Am I the asshole? eða Er ég fávitinn? á íslensku. Það er þátttökuverk skrifað af Dafe Orugbo í leikstjórn Lisu Nally. Við erum viðstödd réttarhöld. Yfirskrift sýningarinnar útleggst þannig á íslensku: „Öll skulu rísa á fætur, dómstóll almenningsálitsins er settur.” Eins og yfirskriftin segir til um eru þetta ekki hefðbundin réttarhöld. Brotaþoli og gerendur takast á um hver hefur rétt fyrir sér og hvort þeim verður slaufað. Spurningarnar sem þessi dómstóll reynir að finna svör við eru til dæmis: „Máttu fara á stefnumót með fyrrverandi maka vinar þíns? Máttu gefa afmælisgjöf áfram? Verkið snýst um deilur fyrrverandi kærustupars og brúðkaupsgjöf til sameiginlegrar vinkonu þeirra. Þegar áhorfendur kaupa miða hafa þeir val um að velja milli hefðbundinna miða og kviðdómsmiða. Þeir kosta það sama og almennir miðar en mikilvægt er að þeir sem velja þá mæti fyrr enda þarf að velja í kviðdóminn. Hver áhorfandi sem sækist eftir kviðdómsmiða þarf að svara einni spurningu frá verjendum sakbornings og ákæranda. Svarið sker úr um hvort hann fær sæti í kviðdómnum. Spurningarnar eru til dæmis: „Ertu í sokkum? Ertu á lausu? Lilo eða Stitch?” Tólf áhorfendur taka sæti í kviðdómi og þeir fá klemmuspjald, blað og penna til að glósa í réttarhöldunum. Kviðdómurinn þarf að taka mikilvæga ákvörðun til að svara spurningunni, hver er fávitinn? Leikmyndin er lágstemmd og leyfir áhorfendum því að einblína á samtölin. Texti Orugbos er táknrænn og beinskeyttur en engu að síður sannfærandi sem talsmáti persónanna. Hvítir kassar undir sönnunargögn eru aðalleikmunirnir og eru í ýmsum hlutverkum í sýningunni, færast til og breytast eftir því hvað gengur á hverju sinni. Leikararnir eru hvaðanæva að, skoskir, írskir, breskir og bandarískir. Það vakti áhuga undirritaðar þar sem réttarhöldin eiga að gerast á Írlandi en þar sem þessi réttarhöld eiga sér ekki stað í hefðbundnum dómstól gengur það upp. Emily Lagace fer með hlutverk dómarans og vinkonunnar Olive og gerir það með glæsibrag. Hún flakkar auðveldlega á milli persónanna og samskipti hennar við áhorfendur vöktu mikla lukku. Þegar búið er að fara yfir málsgögnin er kviðdómnum fylgt í litla kompu undir sviðinu til að ræða réttarhöldin. Þegar niðurstaða er fengin í öllum ákæruliðum stígur kviðdómurinn á svið og talsmaður hans tilkynnir áhorfendum niðurstöðuna. Þetta er stórskemmtileg sýning þar sem áhorfendur stjórna ferðinni að miklu leyti og því eru engar tvær sýningar eins. Verkið er marglaga og gerir grín að slaufunarmenningu á frumlegan og áhugaverðan máta og sýnir jafnframt fram á að hlutirnir geta gjarnan verið flóknari en þeir virðast fyrst um sinn. Verkið er tilraunakennd, gamansöm satíra sem snertir á þemum um kynþátt, stétt og kynjamismunun og spyr stórra spurninga um hvað það sé sem skiptir okkur máli. Dublin Fringe Festival er áhugaverð hátíð sem leikhúsunnendur ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Áhersla er lögð á að koma ungu og upprennandi listafólki á framfæri með nýjum verkum. Því er hátíðin áhugaverð endurspeglun á því sem er efst á baugi hjá ungu listafólki í dag. Katla Ársælsdóttir, sviðslistagagnrýnandi Víðsjár á Rás 1, fjallar um Dublin Fringe Festival sem er áhugaverð hátíð sem leikhúsunnendur ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Katla Ársælsdóttir flutti pistil sinn í Víðsjá á Rás 1 sem finna má í spilaranum hér fyrir ofan. Katla lærði leikhúsfræði í Trinity College í Dublin og bókmenntafræði í Háskóla Íslands.

Erfitt að eyða óvissu um umhverfisáhrif Sundabrautar

Erfitt að eyða óvissu um umhverfisáhrif Sundabrautar

Umhverfismatsskýrsla vegna Sundabrautar er opin fyrir umsagnir í Skipulagsgátt. Skiptar skoðanir eru um framkvæmdina og hvaða leið skuli farin – brú eða göng. Helga Jóna Jónasdóttir, verkefnisstjóri Sundabrautar hjá Vegagerðinni, segist skilja að fólk hafi sterkar skoðanir því framkvæmdin feli í sér töluvert inngrip í þéttbýli. Vinna þurfi ítarlegar greiningar á áhrifum framkvæmdarinnar á umferð. Sama hvaða lausn verði fyrir valinu verði áhrif á alla umferð jákvæð en brú mæti markmiðum verkefnisins betur. Erfitt að meta öll áhrif á Leiruvog Helga Jóna vonast til þess að álit Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum liggi fyrir í byrjun árs. Mögulegir neikvæðir þættir séu óvissa um áhrif á náttúru í Leiruvogi og Vegagerðin reyni að líkja eftir þeim með líkönum. „Það ríkir ákveðin óvissa um áhrifin á Leiruvoginn því eina leiðin til að sjá hver áhrifin verða er hreinlega að leggja Sundabraut. [...] Fleiri neikvæð áhrif eru kannski í einhverjum tilvikum á hljóðvist eða loftgæði og síðan að sjálfsögðu eru ásýndaráhrif af hárri brú eða hærri brú tali neikvæð,“ sagði Helga Jóna á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Helga á von á að álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir eftir áramót. Þá verði hægt að ráðast í útboðsferli og jafnvel verði hægt að hefja framkvæmdir 2027 og þá gæti Sundabraut verið opnuð 2032. Kostnaður fari eftir því hvaða leið verði valin og þá sé mikilvægt að fyrir liggi að umferð verði næg til að hægt verði að fjármagna framkvæmdina með gjaldtöku. „En við erum að horfa á stærðargráðu sem er á annað hundrað milljarða, en það er ekkert sem bendir til þess að gjaldtakan eigi ekki að geta staðið undir því.“ Sundabraut og umhverfisáhrif framkvæmdanna var til umræðu á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun: Verkefnisstjóri Sundabrautar hjá Vegagerðinni segir erfitt að meta fullkomlega umhverfisáhrif við framkvæmdina. Kostnaður verði á annað hundrað milljarða króna.

Hvað gerir Trump þá?

Hvað gerir Trump þá?

Undanfarna daga hefur fjöldinn allur af þjóðum tryggt sæti sín á HM 2026 í knattspyrnu karla sem fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó næsta sumar. Sjálfur er ég alltaf spenntastur fyrir því að sjá þjóðir taka þátt í fyrsta sinn, kannski fyrir…

Skora á stjórnvöld: Fleiri muni lifa með krabbamein

Skora á stjórnvöld: Fleiri muni lifa með krabbamein

Krabbameinstilvikum hefur fjölgað hratt síðustu ár og áratugi án þess að nauðsynlegir innviðir hafi verið styrktir til samræmis. Spár benda til 63% fjölgunar tilvika til ársins 2045 auk þess sem bættur árangur í meðferð krabbameina leiðir til þess að verulega fleiri lifa með krabbamein sem þarfnast langvarandi meðferðar. Spáð er 96% fjölgun lifenda til ársins 2045.

Átti ekki von á kallinu og vonar að hún verði með á HM

Átti ekki von á kallinu og vonar að hún verði með á HM

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tapaði 22-24 fyrir Færeyjum í gærkvöld. Þetta var fyrsti leikur liðanna í undankeppni EM á næsta ári en bæði liðin verða með á HM í Þýskalandi sem hefst í nóvember. Íslenska liðið er nokkuð breytt frá síðustu verkefnum, margir lykilleikmenn hafa lagt landsliðsskóna á hilluna, eru meiddir eða í barneignaleyfi. Lovísa Thompson var nú valin í landsliðið í fyrsta skipti síðan 2022. Hún tók sér tveggja ára pásu frá handbolta og var einnig að glíma við meiðsli en er ánægð að vera mætt aftur í íslensku treyjuna. Lovísa Thompson sneri aftur í íslenska kvennalandsliðið í handbolta eftir þriggja ára fjarveru í gær. Þrátt fyrir tap fyrir Færeyjum er hún ánægð að vera komin í íslensku landsliðstreyjuna á nýjan leik og hún vonast til að vera í lokahópnum fyrir HM. Lovísa viðurkennir að það var strembið að eiga við færeysku sóknina: „Já, það var bara drulluerfitt. Þær eru ótrúlega kvikar og snöggar og gera þetta mjög vel.“ Þrátt fyrir tapið var hún ánægð með að fá aftur landsleik: „Það er bara ótrúlega gaman að koma til móts við liðið og vera komin aftur á parketið með þeim. Langt síðan síðast og ég er svona að fikra mig áfram. Ég er bara búin að fara á tvær æfingar þannig að ég á kannski langt í land með að komast inn í allt systemið.“ Lovísa spilaði nánast eingöngu í vörninni í gær, töluvert breytt hlutverk frá því hún var síðast í landsliðinu. „Ég var alveg smá hissa. En mér finnst samt gaman að spila vörn og ef ég fæ að klukka leikmenn þá er ég frekar góð í því, þó ég segi sjálf frá.“ Hélt að landsliðsferlinum væri lokið Eftir hléið sem Lovísa tók sér frá íþróttinni átti hún ekki beint von á því að spila aftur fyrir Ísland: „Ég verð eiginlega að viðurkenna það að ég bjóst ekkert endilega við því að fá að koma hérna aftur og þess vegna er ég sérstaklega þakklát fyrir það.“ Ísland verður með á HM í Þýskalandi í nóvember og desember og Lovísa vonar auðvitað að hún verði með þar: „Það væri náttúrlega geggjað en eins og ég segi þá þarf þetta nú kannski fyrst að smella saman áður en ég fæ tækifæri til að komast í lokahóp þar. Þannig að ég þarf aðeins að sjá, og Addi [Arnar Pétursson landsliðsþjálfari] líka. Við vinnum þetta saman og sjáum hvað gerist svo, vonandi.“

Spá fjögurra prósenta verðbólgu út árið

Spá fjögurra prósenta verðbólgu út árið

Íslandsbanki og Landsbanki spá því báðir að verðbólga verði um fjögur prósent út þetta ár, líkt og hún hefur verið síðustu átta mánuði. Landsbankinn spáir því að verðbólga fari úr 4,1 prósenti í 4,2 prósent í þessum mánuði en Íslandsbanki spáir því að hún standi í stað. Íslandsbanki spáir því að verðbólga minnki niður í 3,2 prósent í júlí en aukist svo á ný þegar líður á næsta ár. Hundrað krónu mynt.RÚV / Steinunn Þórhallsdóttir