Fólk veikt af fráhvörfum og geðsjúkdómum á ekki að læsa í fangaklefum
Brýn og vaxandi þörf er á aðstöðu til afeitrunar fyrir vímuefnaneytendur á Akureyri, að mati lögreglu sem hefur undanfarin ár verið beðin að vista fólk í annarlegu ástandi í fangaklefa, þótt það hafi ekkert brotið af sér. Lögreglan á Norðurlandi eystra þarf æ oftar að hafa afskipti af fólki í annarlegu ástandi, sem má rekja til vímuefnaneyslu og geðsjúkdóma. „Þegar fólk er undir áhrifum vímuefna, segir sig sjálft að það er erfitt að gera á því geðmat“, segir Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri. Þau skilji á þann hátt afstöðu sjúkrahússins, að fólk í annarlegu ástandi eigi ekki erindi inn á almenna geðdeild. En þörf sé fyrir afeitrunaraðstöðu á Norðurlandi og öryggisgeðdeild, fyrir fólk í miklu ójafnvægi. Það sé ekki rétt að vista fólk í fangaklefum vegna skorts á aðstöðu í heilbrigðiskerfinu - eða því félagslega. Engin afeitrun er í boði á Norðurlandi og dæmi um að fólk með vímuefna- og geðvanda gisti fangaklefa. Geðdeild segist hvorki hafa aðstöðu né mannskap til að taka við fólki í annarlegu ástandi. Hafa reynt að vekja athygli á málinu í nokkur ár Lögreglustjóri sendi sjúkrahúsinu á Akureyri minnisblað vegna ástandsins í fyrra og sagðist í nokkur ár hafa reynt að vekja athygli á því. Of oft færu starfsmenn sjúkrahússins fram á að veikt fólk væri vistað í fangaklefa þegar það hefði ekki brotið af sér. Spítalinn yrði að hafa afeitrunaraðstöðu. Því þótt það sé ekki nýlunda að fólk sofi ölvun eða vímu úr sér í fangaklefum, sé það ekki staður til að takast á við alvarleg fráhvörf eða geðtruflanir. „...of algengt sé að starfsfólk Sjúkrahússins á Akureyri geri kröfu á lögreglu um að vista einstaklinga í fangageymslum þar sem þeir séu undir áhrifum vímuefna og fái því ekki þjónustu á geðdeild SAk. Þarna er oft um að ræða einstaklinga sem hafa ekkert brotið af sér og forsendur fyrir handtöku þeirra og vistun því tæplega fyrir hendi“, segir í minnisblaði frá Páleyju Borgþórsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi eystra. Lögreglan segir brýnt að bæta úr aðstöðuleysi á sjúkrahúsinu. Ekki síst þar sem fyrirhuguð er stækkun á byggingunni. Jóhannes segist hafa séð málin þyngjast á þeim áratugum sem hann hefur starfað í lögreglunni. „Tilvikum þar sem fólk er í sjálfskaðahegðun hefur fjölgað. Einnig sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum. Síðan er fíkniefnavandi talsverður í landinu okkar, því miður og þetta hangir nú svolítið saman“, segir Jóhannes. Hvergi fráhvarfsmeðferð á sjúkrahúsi á landsbyggðinni Einu fráhvarfsmeðferðirnar á landinu eru á sjúkrahúsinu Vogi og á Landspítala. Það heyrir til tíðinda þegar ekki er langur biðlisti á Vog og erfitt getur verið að flytja bráðveikt fólk svo langan veg. Heilsugæslustöðvar geta þó einnig aðstoðað fólk í fráhvörfum, í einhverjum tilvikum. Yfirlæknir geðdeildar SAk tekur undir að málaflokkurinn hafi þyngst með árunum. Á meðan hafi staðan á sjúkrahúsinu lítið breyst, það hafi hvorki mannskap né aðstöðu til að taka við mjög órólegu eða árásargjörnu fólki. Taka á móti fólki „þegar ástand hefur róast“ „Ég held ég geti fullyrt að í þeim tilfellum, þar sem þessir einstaklingar vistast tímabundið í fangaklefa hjá lögreglunni, þá bjóðum alltaf upp á það um leið og ástand róast að þá geti þeir komið og verið metnir á bráðamóttökunni hjá okkur“, segir Árni Jóhannesson, yfirgeðlæknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Lögreglan og sjúkrahúsið hafa aukið samvinnu eftir að úrræðaleysi var gagnrýnt í sérstöku eftirliti með frelsissviptum á vegum Umboðsmanns Alþingis. Kerfið hafi þó ekki haldið í við vaxandi vímuefnaneyslu um allt land. „Ég hugsa svo sem það sé full þörf fyrir stað sem getur fengist við bráðan vímuefnavanda á landsbyggðinni líka. Þannig já ég held það sé full þörf á því“, segir Árni.