Gvæjanamenn og Venesúelamenn skiptust á skotum
Herinn og lögreglan í Gvæjana sökuðu Venesúelamenn um að hafa skotið á bát með farm af kosningagögnum á sunnudaginn. Gvæjanamenn segja bátinn hafa verið á siglingu á Cuyuni-fljóti á Essequibo-svæðinu, sem Gvæjana og Venesúela hafa deilt um undanfarin ár. Um borð í bátnum voru embættismenn með farm af kjörseðlum á leið til afskekktra kjörstaða í Gvæjana. Gvæjanamenn segja bátinn hafa orðið fyrir skotum frá fljótsbakkanum Venesúelamegin. „Varðliðið svaraði skotunum undir eins og leiddi fylgdarliðið úr háska,“ sagði gvæjanski herinn í yfirlýsingu um atvikið. „Þrátt fyrir atvikið hélt teymið áfram ferð sinni og öllum kjörkössum sem eftir voru var skilað á viðeigandi kjörstaði.“ Þing- og forsetakosningar fara fram í Gvæjana í dag. Sitjandi forseti landsins, Irfaan Ali, vonast eftir því að uppsveifla í efnahagslífi landsins vegna olíuvinnslu muni skila honum öðru kjörtímabili. Margar gjöfulustu olíulindir Gvæjana eru á Essequibo-svæðinu, sem Venesúela gerir tilkall til. Lög voru sett í Venesúela í mars 2024 þar sem þarlend stjórnvöld skilgreindu Essequibo sem hluta af landinu. Á þessu ári létu venesúelsk stjórnvöld skipa landstjóra í Essequibo, þrátt fyrir að ráða ekki yfir svæðinu í reynd.