Enn alltof lítið af hjálpargögnum á Gaza
Nokkurn tíma gæti tekið að draga úr af hungursneyð á Gazaströndinni, þrátt fyrir að hjálpargögn séu farin að berast, eftir hörmungarástand síðustu tveggja ára. Þetta segir Abeer Etefa talskona matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna. Þrjú þúsund tonn af mat hafa verið flutt inn frá því að samið var um vopnahlé. Matvælaaðstoðin hefur komið upp fimm úthlutunarstöðvum en stefnir að því að opna 140 til viðbótar. Það er enn alltof lítið af hjálpargögnum á Gaza og það gæti tekið nokkurn tíma að draga úr hungursneyð. Landamærastöðin við Egyptaland er enn lokuð. Enn þarf að fara með hjálpargögn, sem eru í hrönnum í Egyptalandi, langa krókaleið til skoðunar á landamærunum Ísraelsmegin, því ísraelsk stjórnvöld hafa ekki opnað Rafah-landamærastöðina við Egyptaland. „Hjálparteymi á Gaza nýta þrátt fyrir það til fulls tækifærið sem vopnahléið hefur gefið til hjálparstarfa,“ segir Stéphane Dujarric, talsmaður framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Lík 19 ísraelskra gísla eru enn á Gaza. Leiðtogar Hamas-samtakanna hafa sagt það taka langan tíma að finna lík þeirra sem séu grafin undir mörgum tonnum af braki bygginga og í neðanjarðargöngum. Tyrklandsstjórn hefur sent sérfræðinga í rústabjörgun til að aðstoða við leitina.