Stefna á skólahald í Grindavík næsta haust
Stefnt er á að hefja skólahald á ný í Grindavík næsta haust. Ný fyrirtæki eru að opna og þótt bærinn verði aldrei samur segir forseti bæjarstjórnar að mikill hugur sé í heimamönnum. Verktakar og Vegagerðin hafa unnið hörðum höndum undanfarna mánuði að lagfæringu helstu innviða Grindavíkurbæjar. Stefnt er á skólahald næsta haust. Grunnskólinn tilbúinn í maí Lagfæringar á gatnakerfi og helstu innviðum í Grindavíkurbæ hafa staðið yfir síðustu misseri. Flestar götur og gönguleiðir eru nú færar og vinna stendur yfir að bæði klæða og mála grunnskólann. Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar, segir mikið vatn hafa runnið til sjávar á skömmum tíma. „Íþróttamiðstöðin er klár, sundlaugin, tjaldstæðið. Það er ýmislegt í gangi og við höfum unnið hörðum höndum að því að koma öllu þessu í vinnu,“ segir Ásrún. „Svo erum við að vinna í grunnskólanum og við stefnum að því að grunnskólinn verði tilbúinn í maí þegar sveitastjórnarkosningar fara fram. Þá langar okkur að bjóða í kaffi.“ Ný fyrirtæki opna í bænum Ríkisstjórnin hefur samþykkt fjármagn í svokallaða framkvæmdaáætlun tvö sem áætlað er að taki þrjú ár. Í þeirri áætlun er meðal annars lagfæring á Stamphólsgjá, stórri sprungu sem liggur þvert í gegnum bæinn og á stærstan þátt í breyttri ásýnd hans. Tæplega 900 manns eru með skráð lögheimili í Grindavík og er talið að allt að 400 manns gisti í húsum sínum næturlangt. Um 800 starfa í bænum, þar af tæplega helmingur við ferðaþjónustu og rúmlega fjórðungur við sjávarútveg. „Það er svo mikil seigla í fólkinu hér og í atvinnulífinu og sum fyrirtækin hafa starfað allan tímann. Hér eru líka að opna ný fyrirtæki. Hér er að opna súkkulaðiverksmiðja og fleiri fyrirtæki. Ég hef sagt að lífið gangi sinn vanagang í Grindavík og fólk mætir hér í vinnu,“ segir Ásrún. Hugur í Grindvíkingum að snúa til baka Fasteignafélagið Þórkatla útfærir nú endurkaupaáætlun sem gerir fyrri eigendum kleift að kaupa fasteignir sínar aftur. Gert er ráð fyrir að áætlunin verði kynnt í byrjun næsta árs. Ásrún segir þetta fagnaðarefni. Mikill hugur sé í fjölda Grindvíkinga að snúa til baka á einhverjum tímapunkti. Bæjarstjórn leggi drög að vinnu við fjárhagsáætlun fyrir næsta kjörtímabil. „Ég tel að það sé brýnt að skoða hvernig við högum skólamálum til dæmis og það er eitthvað sem við þurfum að vinna í sameiningu og finna flöt á.“ Vonir standi til að hægt verði að hefja skólahald næsta haust. „Grindavík verður ekki eins og hún var. Það er ljóst. En ég sé tækifæri hér og hlakka til að takast á við það og bara spennt að vera þátttakandi í þessari endurreisn sem fram undan er.“