Fara fram á handtöku manns sem grunaður er um að hafa myrt kóranbrennara
Ákæruvaldið í Svíþjóð hefur farið fram á handtöku 24 ára Sýrlendings sem grunaður er um að hafa í janúar skotið Salwan Momika til bana. Momika hafði ítrekað staðið fyrir kóranbrennum sem ollu miklum deilum. Ekki er vitað hvar sá grunaði er niður kominn, segir í yfirlýsingu frá Rasmus Oman, hjá embætti ríkissaksóknara í Svíþjóð. Sænska blaðið Expressen segist hafa heimildir fyrir því að hann sé í Íran. Skotinn til bana í beinni útsendingu Salwan Momika var skotinn til bana í íbúð sinni í Södertälje í janúar. Hann var Íraki og kristinnar trúar. Hann var í beinni útsendingu á TikTok þegar hann var skotinn og komst morðið í heimsfréttirnar. Í yfirlýsingu saksóknara segir að sá grunaði hafi „banað Salwan Momika nokkrum skotum með skammbyssu“. Morðið hafi verið rækilega skipulagt. Momika var drepinn aðeins nokkrum klukkustundum áður en hann átti að mæta fyrir dóm í Stokkhólmi þar sem átti að úrskurða hvort hann og samverkamaður hans, Salwan Najem, væru sekir um að kynda undir þjóðernishatri. Eftir morðið var dómsuppsögu í málinu frestað. Najem var svo dæmdur fyrir fjórar kóran brennur á árinu 2023. Kóranbrennurnar voru afar umdeildar. Meðal annars urðu uppþot í Malmö í september 2023, skömmu eftir að Momika brenndi þar kóran. Yfirvöld í Svíþjóð hækkuðu öryggisstig og vöruðu Svía innanlands og utan við aukinni hættu á árásum. Fimm voru handteknir skömmu eftir morðið. Þeim var öllum sleppt tveimur dögum síðar og hreinsaðir af sök í mars. Í tilkynningu frá embætti ríkissaksóknara segir jafnframt að búið sé að ná fram góðri mynd af því hvað gerðist eftir umfangsmikla rannsókn. Sá grunaði hefur áður hlotið dóma fyrir ofbeldisbrot. Sænska blaðið Expressen segist hafa heimildir fyrir því að sá grunaði sé í Íran. Kóranbrennurnar höfðu skaðleg áhrif á samskipti Svíþjóðar við nokkur ríki í Miðausturlöndum. Írakskir mótmælendur réðust í tvígang til inngöngu í sænska sendiráðið í Bagdad í júlí 2023. Mánuði síðar, í ágúst 2023, hækkaði sænska öryggislögreglan, Sapo, hættustig í landinu upp í fjóra af fimm, með þeim orðum að kóranbrennur gerðu Svíþjóð að líklegu skotmarki.