Sundabraut byrjar að taka á sig mynd
Skipulagsstofnun hefur birt umhverfismatsskýrslu vegna Sundabrautar og gefst bæði almenningi og öðrum hagaðilum tækifæri til að gera athugasemdir við hana til loka nóvember. Þá birti Efla verkfræðistofa nýverið samantektarskýrslu um umhverfismat vegna Sundabrautar. Þar eru kynntir helstu valkostir varðandi legu brautarinnar. Taka þarf afstöðu til margra mismunandi þátta áður en hægt er að hanna, bjóða út og loks hefja framkvæmdir á Sundabraut. Samkvæmt umhverfismatinu eru markmið Sundabrautar meðal annars að bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta (akandi, almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi) á norðurhluta höfuðborgarsvæðisins. Sundabraut komi þá til með að bæta tengingu Vestur- og Norðurlands við höfuðborgarsvæðið og áfram um Reykjanesbraut til suðurs. 50 ára gömul hugmynd Hugmyndin að Sundabraut er meira en 50 ára gömul og var fyrst lögð fram árið 1975 í tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur 1975 – 1995. Þá var hún einnig kölluð Kleppsvíkurbú. Sundabraut var sett í Aðalskipulag Reykjavíkur 1981 til 1988 og hófst undirbúningur að henni í desember 1995. Verkefnið var sett á bið á árunum 2007 til 2008 vegna efnahagsmála en árið 2018 hófst undirbúningur að nýju. Skipt í fjóra hluta Verkinu verður skipt upp í fjóra hluta. Þetta þýðir þó ekki að unnið verði samkvæmt þessari skiptingu heldur geta framkvæmdir farið af stað í hvaða hluta sem er og geta einnig farið fram samtímis. Hluti I: Sæbraut – Gufunes Hluti II: Gufunes – Geldinganes Hluti III: Geldinganes – Álfsnes Hluti IV: Álfsnes – Kjalarnes. Jarðgöng eða brú? Eitt það stærsta sem ákveða þarf varðandi Sundabraut er hvernig þvera skuli Kleppsvík. Það verður gert annaðhvort með Sundabrú eða Sundagöngum en nokkrar útfærslur á bæði brú og göngum eru til skoðunar. Komið hefur fram að Vegagerðin telji brú betri valkost heldur en göng. Þetta er reifað í grein sem birtist á vef Vegagerðarinnar. Þar segir að Sundabrú sé hagkvæmari kostur í framkvæmd og rekstri og styðji við fjölbreyttari ferðamáta (gangandi og hjólandi) ásamt hefðbundinni bílaumferð. Einungis bílar gætu ekki nýtt sér jarðgöng undir Kleppsvík. Hægt verður að skila inn umsögnum við umhverfismatsskýrslu næstu sex vikur. Skipulagsstofnun mun þá safna umsögnum frá lögbundnum umsagnaraðilum og leyfisveitendum. Besta kostinn telur Vegagerðin vera að byggja stærri brú sem hafi um 30 metra siglingarhæð undir brúna. Slíkt myndi hafa minni áhrif á starfsemi Sundahafnar. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra sagði á síðasta ríkisstjórnarfundi ekki taka afstöðu um málið en benti á að það væri í samráðsferli. Kynningarfundir á næstu dögum Haldnir verða kynningarfundir á vegum Reykjavíkurborgar. Þar verður fjallað um niðurstöðu umhverfismatsins og drög að aðalskipulagsbreytingu. Fundir verða haldnir eins og hér segir: 20. október kl. 18:00-19:30. Klébergsskóli, Kjalarnesi 21. október kl. 17:30-19:00. Hilton Reykjavík Nordica, Laugardal 22. október kl. 17:30-19:00. Borgaskóli, Grafarvogi Aðalvalkostir verða kynntir og fjallað verður um áhrif þeirra á íbúa og starfsemi í nágrenni Sundabrautar.