Brak úr þakinu blakti eins og sængurver í vindi
Lögregla og slökkvilið vinna nú að því að rífa þak af verksmiðju Primex á Siglufirði þar sem mikill eldur varð í gærkvöld. Búið er að hreinsa þakplötur og þak norðan megin hússins. Talsvert rok hefur verið þar í dag eða mest 18 metrar á sekúndu í hviðum. Ekkert lát er á vindi næstu daga samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu. Ólöf Rún Erlendsdóttir fréttamaður hefur fylgst með stöðunni á Siglufirði eftir hádegið. Hún segir brak úr þakinu hafa blaktað eins og sængurver í vindi þegar komið var á staðinn. Nú sé unnið að því að rífa þakið og vonir standi til að sú vinna klárist í dag. Ekki bara efsta hæðin eins og vonast var til Eldur virtist í fyrstu aðeins bundinn við efstu hæð hússins en að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar, slökkviliðsstjóra í Fjallabyggð, er nú ljóst að hann hefur breiðst út á fleiri hæðum. Miklar skemmdir eru á húsinu, bæði vegna elds og vatns. Það sér það hver maður að húsið er mjög illa farið en ég get ekki lagt mat á umfang tjónsins. Auk viðbragðsaðila vinnur starfsfólk Primex með tryggingafélagi fyrirtækisins að fyrsta mati á umfangi tjónsins. Vigfús Fannar Rúnarsson, framkvæmdastjóri, segir ljóst að miklar skemmdir hafi orðið á húsinu þó enn eigi eftir að meta umfangið að fullu. „Við höfum ekki fengið að fara inn í stóran hluta af húsinu. Þannig að við vitum í raun og veru ekki hvernig ástandið er inni.“ Primex er líftæknifyrirtæki með 24 starfsmenn, þar af vinna 9 í verksmiðjunni á Siglufirði. Kjarnastarfsemi fyrirtækisins er að vinna kítósan, lífvirkt trefjaefni, úr rækjuskel sem er að mestu nýtt í lækningatæki og sárameðhöndlun. Viðtal við Jóhann og Vigfús má nálgast í heild sinni í spilara hér að neðan. Unnið er að því að rífa þakið af verksmiðju Primex á Siglufirði til að forðast foktjón eftir bruna þar í gærkvöld. Reiknað er með áframhaldandi hvassviðri á Siglufirði í kvöld. Slökkviliðsstjóri segir ljóst að miklar skemmdir hafi orðið á húsinu.