Flóttinn á norðurhjarann: Spennandi og falleg bók sem er full af fróðleik
Önnur tveggja bóka eftir Nönnu Rögnvaldardóttur sem koma út í ár er barnabókin Flóttinn á norðurhjarann. Hún gerist á einu mesta hörmungaskeiði Íslandssögunnar, móðuharðindunum. Þetta er fyrsta barnabók Nönnu og fyrir hana hlaut hún Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. „Hún Solla flýr með móður sinni, það er enginn matur. Móðir hennar veit hvert þær eru að fara en Solla veit það ekki. Þær lenda í alls konar lífshættu í fyrri hluta bókarinnar og svo skiptist aðeins sögusviðið og Solla lendir í flóknum fjölskylduaðstæðum, skulum við segja,“ lýsir Kolbrún Bergþórsdóttir, gagnrýnandi Kiljunnar. Það er nefnilega hungursneyð á Íslandi í kjölfar eldgoss. Veturinn er nýbyrjaður þegar mæðgurnar halda af stað í norðurátt. „Þetta er spennandi bók. Fyrri hlutinn er mjög spennandi og seinni hlutinn er sálfræðilegri. Það er ofsalega fallegur tónn í þessari bók,“ heldur Kolbrún áfram. „Solla þarf að glíma og takast á við ýmislegt. Mér finnst Nönnu takast verulega vel upp og ég held að þetta sé bók fyrir ungmenni og að þau muni lesa hana sér til ánægju.“ Ljúft og kalt Ingibjörg Iða Auðunardóttir tekur í sama streng og segir að sér hafi hreinlega orðið kalt við lesturinn þrátt fyrir að hafa lesið bókin í eldhúsinu heima hjá sér í ullarinniskóm með rjúkandi kaffibolla. „Lýsingarnar voru þannig og allir voru svo svangir og þetta var allt svo ömurlegt. Hún birtir þetta ljóslifandi fyrir manni, þessa baráttu.“ „Þetta er bara bók sem er skrifuð á fallegu máli og full af fróðleik. Ég lærði margt um íslenska lifnaðarhætti á öldum áður, bara við lestur þessarar bókar,“ segir Ingibjörg. „Ég held að flest börn á aldrinum 10 ára og upp úr myndu njóta hennar. Á einum tímapunkti hugsaði ég: Ætli börn hafi gaman af þessu? Þetta er smá þjóðlegt en það kemur smá spenna í lokin sem ætti að grípa lesendur.“ Þær eru sammála um að bókin sé mjög vel gerð. „Þetta er ljúft og kalt,“ segir Ingibjörg að lokum. Gagnrýnendur Kiljunnar fjölluðu um Flóttann á norðurhjarann, fyrstu barnabók Nönnu Rögnvaldardóttur. „Mér finnst Nönnu takast verulega vel upp. Ég held að þetta sé bók fyrir ungmenni og þau munu lesa hana sér til ánægju.“ Gagnrýnendur Kiljunnar fjölluðu um Flóttann á norðurhjarann eftir Nönnu Rögnvaldardóttur. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir ofan.