Trump hélt glæsiveislu í þakklætisskyni fyrir framlög til byggingar danssalar

Trump hélt glæsiveislu í þakklætisskyni fyrir framlög til byggingar danssalar

Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt í gærkvöld glæsilegt kvöldverðarboð í móttökusal Hvíta hússins til að þakka auðkýfingum og stórfyrirtækjum fyrir þær 250 milljónir dala sem þau leggja til byggingar nýs danssalar við Hvíta húsið. Á gestalistanum voru fulltrúar hátæknifyrirtækja á borð við Amazon, Apple, Meta, Google og Microsoft auk hergagnaframleiðandans Lockheed Martin. Trump hefur sagt byggingu salarins verða eingöngu fjármagnaða með framlögum úr einkageiranum. Þar á meðal eru 22 milljónir sem forsetinn þáði sem sáttabætur frá YouTube í september vegna þess að fyrirtækið lokaði aðgangi hans eftir árásina á þinghúsið í Washington 6. janúar 2021. Trump sagði að þegar húsið verður fullbúið munu þúsund gestir geta safnast saman bak við veggi salarins sem verða úr skotheldu gleri. Þar verði hægt að halda innsetningarathöfn forseta. „Svo mörg ykkar hafa verið óskaplega hreint örlát,“ sagði Trump þegar hann ávarpaði gestina. „Ég meina, sum ykkar hafa spurt mig hvort 25 milljónir séu við hæfi. Ég svaraði auðvitað, já, ég þigg það,“ sagði Trump. Hann dró gluggatjöldin frá í móttökusalnum til að sýna gestum framkvæmdirnar við þessa umfangsmestu viðbyggingu við Hvíta húsið síðustu öldina. Trump sýndi viðstöddum einnig líkan af miklum sigurboga sem reisa á nærri minnismerkinu um Abraham Lincoln forseta í Washington, sem gárungar hafa kallað „Arc de Trump“, og gæti orðið stærri en Sigurboginn í París. „Hann verður afskaplega fallegur,“ sagði Trump.

Þjóðverjar hyggjast senda fleiri orrustuþotur til Póllands

Þjóðverjar hyggjast senda fleiri orrustuþotur til Póllands

Boris Pistorius varnarmálaráðherra Þýskalands.AP / Omar Havana Þjóðverjar hyggjast senda orrustuþotur til Malbork-herflugvallarins í Póllandi. Varnarmálaráðherrann Boris Pistorius segir tilganginn að efla varnir ríkja Atlantshafsbandalagsins í austanverðri Evrópu. Þjóðverjar hafa þegar fjórar orrustuþotur reiðubúnar til eftirlitsflugs yfir Póllandi. Hið sama hafa nokkur ríki bandalagsins gert, þar á meðal Noregur sem hefur sent þotur og hermenn til Póllands.

Dánaraðstoð heimiluð fyrir fólk með banvæna sjúkdóma sem valda þjáningu

Dánaraðstoð heimiluð fyrir fólk með banvæna sjúkdóma sem valda þjáningu

Dánaraðstoð var lögleidd í Úrúgvæ í gær, sem verður þar með eitt fyrsta ríki Rómönsku Ameríku til þess. Löggjöfin var samþykkt í neðri deild þingsins í ágúst og í gær greiddu 20 af 31 viðstöddum öldungadeildarþingmönnum atkvæði með frumvarpinu. Lögin heimila að aðstoð verði veitt við sjálfsvíg fullorðinna úrúgvæskra ríkisborgara eða annarra þar búsettra sem eru andlega færir til ákvarðanatöku og á lokastigi ólæknandi sjúkdóms sem veldur þeim þjáningum. Þingheimur skiptist á skoðunum í tíu klukkustundir og nokkrir þingmenn sögðu umræðurnar hafa tekið verulega á, enda tilfinningaþrungnar. Kurteisi og virðingar hafi verið gætt í hvívetna þótt fáeinir áhorfendur hafi hrópað „morðingjar“ þegar niðurstaðan lá fyrir. Nokkur ár eru síðan ráðandi breiðfylking vinstri flokkanna, Frente Amplio, lagði til að dánaraðstoð yrði leyfð í Úrúgvæ. Það mætti harðri andstöðu, einkum meðal trúheitra hægrimanna. Nýleg skoðanakönnun sýnir að 60% landsmanna eru fylgjandi dánaraðstoð en 24 af hundraði eru á móti. Þetta litla og tiltölulega fámenna land í Suður-Ameríku á langa sögu af frjálslyndi í löggjafarmálum: marijúananeysla er lögleg og talsvert er síðan samkynja hjónabönd og þungunarrof voru leyfð. Dómstólar í Kólumbíu og Ekvador hafa afglæpavætt dánaraðstoð, án þess að hún hafi verið lögleidd. Dauðveiku fólki á Kúbu er heimilt að afþakka að vera haldið lifandi með fulltingi tækjabúnaðar. Samtök lækna í Úrúgvæ hafa ekki tekið afstöðu til dánaraðstoðar og segja hvern heilbrigðisstarfsmann þurfa að vega og meta út frá eigin samvisku. Kaþólska kirkjan í landinu hefur lýst hryggð vegna ákvörðunar þingsins.

Leggjast gegn lækkun hámarksstyrks og styðja breytingar

Leggjast gegn lækkun hámarksstyrks og styðja breytingar

Öflug og sjálfstæð fjölmiðlun styrkist helst með skynsamlegum útfærslum á endurskoðunaráformum Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra um auglýsingabirtingar í Ríkisútvarpinu. Rekstrarvanda sjálfstæðra fjölmiðla megi rekja til skakkrar stöðu gagnvart því sem nýtur opinberra framlaga og keppir á auglýsingamarkaði. Það sé einsdæmi á Norðurlöndunum sem sé ekki nefnt í samanburði á styrkja- og rekstrarumhverfi fjölmiðla þar. Það gefi villandi mynd. Þetta kemur fram í nefndaráliti með breytingartillögu um fjölmiðlalögin frá fyrsta minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, miðflokksmannsins Snorra Mássonar og sjálfstæðismönnunum Sigurðar Arnar Hilmarssonar og Jóns Péturs Zimsen. Þingmennirnir þrír telja framgang frumvarpsins í óbreyttri mynd hvorki til þess fallinn að auka sjálfstæði fjölmiðla né möguleika þeirra til að veita valdhöfum aðhald. „Það að gera fjölmiðla fjárhagslega háða hinu opinbera veikir aðhaldshlutverk þeirra, dregur úr óhæði gagnvart stjórnvöldum og eykur freistnivanda þeirra stjórnmálamanna sem vilja hlutast til um fjölmiðlun í landinu.“ Þingmennirnir leggja ákveðið til að hámarksstyrkir verði áfram 25% af heildarframlagi en ekki lækkaðir í 22% eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Sú breyting myndi lækka styrkveitingar til tveggja stærstu fjölmiðlanna, Árvakurs og Sýnar, sem þingmennirnir segja helst geta veitt Ríkisútvarpinu samkeppni og stjórnvöldum aðhald. Skilaboð ríkisstjórnarinnar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins virðist vera að óánægja ríki um störf þróttmikilla og gagnrýninna fjölmiðla. „Ellegar er hætt við því að þingið sendi þau skilaboð að fjölmiðlum hefnist fyrir að veita stjórnvöldum aðhald,“ segir í álitinu. Það eigi sérstaklega við vegna umræðna um pólitískan þrýsting á ráðherra málaflokksins.

Leggjast gegn lækkun hámarksstyrks og styðja endurskoðun á auglýsingum í RÚV

Leggjast gegn lækkun hámarksstyrks og styðja endurskoðun á auglýsingum í RÚV

Öflug og sjálfstæð fjölmiðlun styrkist helst með skynsamlegum útfærslum á endurskoðunaráformum Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra um auglýsingabirtingar í Ríkisútvarpinu. Rekstrarvanda sjálfstæðra fjölmiðla megi rekja til skakkrar stöðu gagnvart því sem nýtur opinberra framlaga og keppir á auglýsingamarkaði. Það sé einsdæmi á Norðurlöndunum sem sé ekki nefnt í samanburði á styrkja- og rekstrarumhverfi fjölmiðla þar. Það gefi villandi mynd. Þetta kemur fram í nefndaráliti með breytingartillögu um fjölmiðlalögin frá fyrsta minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, miðflokksmannsins Snorra Mássonar og sjálfstæðismönnunum Sigurðar Arnar Hilmarssonar og Jóns Péturs Zimsen. Þingmennirnir þrír telja framgang frumvarpsins í óbreyttri mynd hvorki til þess fallinn að auka sjálfstæði fjölmiðla né möguleika þeirra til að veita valdhöfum aðhald. „Það að gera fjölmiðla fjárhagslega háða hinu opinbera veikir aðhaldshlutverk þeirra, dregur úr óhæði gagnvart stjórnvöldum og eykur freistnivanda þeirra stjórnmálamanna sem vilja hlutast til um fjölmiðlun í landinu.“ Þingmennirnir leggja ákveðið til að hámarksstyrkir verði áfram 25% af heildarframlagi en ekki lækkaðir í 22% eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Sú breyting myndi lækka styrkveitingar til tveggja stærstu fjölmiðlanna, Árvakurs og Sýnar, sem þingmennirnir segja helst geta veitt Ríkisútvarpinu samkeppni og stjórnvöldum aðhald. Skilaboð ríkisstjórnarinnar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins virðist vera að óánægja ríki um störf þróttmikilla og gagnrýninna fjölmiðla. „Ellegar er hætt við því að þingið sendi þau skilaboð að fjölmiðlum hefnist fyrir að veita stjórnvöldum aðhald,“ segir í álitinu. Það eigi sérstaklega við vegna umræðna um pólitískan þrýsting á ráðherra málaflokksins.

Varnarmálaráðherra hótar hörku afhendi Hamas ekki líkin

Varnarmálaráðherra hótar hörku afhendi Hamas ekki líkin

Israel Katz varnarmálaráðherra Ísraels hótar að hefja stríðsaðgerðir aftur á Gaza í samráði við Bandaríkjastjórn virði Hamas-hreyfingin ekki ákvæði vopnahléssamkomulagsins. Kveikja orða Katz er yfirlýsing Hamas-hreyfingarinnar eftir að hún afhenti líkamsleifar tveggja gísla í gær þess efnis að útilokað sé að finna lík fleiri gísla í rústum Gaza án sérhæfðs búnaðar. Þetta yrðu því síðustu líkin sem skilað yrði að sinni. Katz segir að gangi Hamas á bak orða sinna verði gengið milli bols og höfuðs á hreyfingunni og raunveruleika fólks á Gaza breytt í samræmi við markmið stríðsins. Hreyfingin hefur þegar látið af hendi líkamsleifar níu af 28 látnum gíslum ásamt einu líki sem Ísraelsmenn kannast ekkert við og segja ekki vera einn þeirra. „Andspyrnuhreyfingin hefur uppfyllt skilyrði samkomulagsins með því að láta af hendi alla ísraelska fanga sína, ásamt þeim líkum sem hún gat nálgast,“ segir í samfélagsmiðlayfirlýsingu hernaðararmsins Ezzedine Al-Qassam. Allt verði gert til að uppfylla skilyrði samkomulagsins. Háttsettir bandarískir ráðgjafar segjast hafa rætt við Hamas og telja trúlegt að þeir hyggist standa við orð sín. Gíslunum var sleppt í skiptum fyrir næstum tvö þúsund Palestínumenn sem sátu í ísraelskum fangelsum. Viðbúið þykir að frekar verði þrýst innanlands á ríkisstjórn Benjamíns Netanjahús um að draga úr mannúðaraðstoð á Gaza fái ástvinir ekki líkin í hendurnar. Öryggisráðherrann Itamar Ben Gvir hefur hótað að beita sér fyrir slíku afhendi Hamas ekki líkamsleifar hermanna í haldi þeirra.

Þrjár aftökur í vikunni — hafa ekki verið fleiri í tólf ár

Þrjár aftökur í vikunni — hafa ekki verið fleiri í tólf ár

Tæplega sextugur karlmaður, dæmdur fyrir nauðgun og morð, var tekinn af lífi í Mississippi í Bandaríkjunum í gær. Þetta er þriðja aftakan í landinu í vikunni og sú fjórða er fyrirhuguð í Arizona á morgun, föstudag. Hinar voru í Flórída og Missouri. Alls hafa 38 verið tekin af lífi í Bandaríkjunum það sem af er ári, aldrei fleiri síðan árið 2013 þegar aftökurnar voru 39. Þær eru langflestar í Flórída í ár, eða fjórtán, fimm í Texas og Suður-Karólínu og fjórar í Alabama. Flestum, eða 32, hefur verið gefin banvæn sprauta og tveir féllu fyrir kúlum aftökusveitar. Fjórir hafa verið teknir af lífi með beitingu niturgass, sem veldur köfnun. Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt þá aftökuaðferð sem grimmilega og ómannúðlega. Dauðarefsing hefur verið aflögð í 23 af 50 ríkjum Bandaríkjanna og hún hefur tímabundið verið stöðvuð í þremur til viðbótar. Donald Trump forseti er mjög fylgjandi dauðarefsingu og hvatti á fyrsta degi til fjölgunar aftaka fyrir viðurstyggilegustu glæpina eins og hann orðaði það.

Bandaríkjaforseti kveðst íhuga aðgerðir gegn glæpagengjum á jörðu niðri

Bandaríkjaforseti kveðst íhuga aðgerðir gegn glæpagengjum á jörðu niðri

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, fordæmir það sem hann kallar tilraun til valdaráns skipulagða af bandarísku leyniþjónustunni CIA. Hann sakar Bandaríkjastjórn einnig um stríðsæsingar á Karíbahafssvæðinu. Maduro lét þessi orð falla skömmu eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist íhuga að leggja til atlögu að venesúelskum glæpagengjum á jörðu niðri. „Við erum sannarlega að horfa til aðgerða á landi núna, því við höfum náð góðri stjórn á hafinu,“ sagði Trump á blaðamannafundi í Hvíta húsinu. Hann vildi hins vegar ekki staðfesta sannleiksgildi frétta New York Times um að hann hefði heimilað CIA á laun að leggja til atlögu við stjórn Maduors. „Þetta er fáránleg spurning, eða öllu heldur væri ekki fáránlegt ef ég svaraði henni.“ Bandarísk herskip og herþotur eru í Karíbahafi til að stöðva eiturlyfjasmyglara. Minnst 27 hafa týnt lífi í árásum Bandaríkjahers á smábáta sem Trump segir hafa borið fíkniefnafarma. Engar sönnur hafa þó verið bornar á það og sérfræðingar eru efins um lögmæti slíkra árása á alþjóðlegu hafsvæði enda hafi engin önnur afskipti verið höfð af hinum grunuðu. Gustavo Petro, forseti Kólumbíu, telur nokkra hinna drepnu vera landa sína. Eftir árásina í gær tilkynnti Maduro aukið viðbragð hersins, lögreglunnar og borgaralegra sveita meðfram ströndum Venesúela og við landamærin að Kólumbíu.

Segir samfélagið þurfa að taka sameiginlega ákvörðun um notkun gervigreindartóla

Segir samfélagið þurfa að taka sameiginlega ákvörðun um notkun gervigreindartóla

Gervigreind hefur á undanförnum árum fleygt fram og er farin að hafa rækileg áhrif á samfélagið. Gervigreindin hefur þróast hratt, nú getur hún talað við fólk, þýtt texta á örskotsstundu og sömuleiðis skrifað fyrir okkur á góðri íslensku. Fjallað var um tækifæri og ógnir gervigreindarinnar á sviði íslenskrar tungu í Kastljósi kvöldsins. „Við þurfum svolítið að ákveða sem samfélag hvernig við viljum nota tólin og hvar við viljum draga mörkin og eiga samtalið þvert á okkur öll, hvernig listamenn sjá þetta og hvernig aðrir sjá þetta,“ segir Lilja Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms. Hún segir gervigreindina hafa náð að breyta leiknum og að ákveðnum áfangastað hafi verið náð þ.e.a.s. að íslenskan virki vel á mörgum stöðum eins og í samskiptum við spjallmennið ChatGBT. Hún bendir þó á að þrátt fyrir að íslenskan sé langt komin standi hún höllum fæti í samanburði við önnur stærri tungumál. „En að sama skapi þá erum við ekki í sömu stöðu og tungumál eins og enska eða spænska sem munu sjálfkrafa ná ákveðnum árangri og verða hluti af þessum lausnum á meðan við munum kannski alltaf þurfa að berjast fyrir okkar plássi“. Vilhjálmur Þorsteinsson, stofnandi og stjórnarformaður Miðeindar, sem er hugbúnaðarfyrirtæki á sviði máltækni og gervigreindar, segir að tækifærin aukist með betri mállíkönum gervigreindarinnar. Þá segir hann að svokölluð spjallmenni verði sífellt öflugri og betri í íslenskunni. „Og það sem meira að þau eru orðin fjöltyngd þannig að ef þú ert Pólverji og býrð í Kópavogi þá getur þú spurt spurninga á pólsku og fengið svar á pólsku, en þau eru unnin upp úr íslenskum gögnum.“ Vilhjálmur segist sjálfur hafa áhyggjur af svokallaðri gervigreindargjá. Þá segir hann að hætta sé á að ekki allir hafi jafnan aðgang að gervigreindinni, það gæti þá orðið til þess að ójöfnuður aukist. „Ég held að við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við endurdreifum þessari tækni og ávinningnum af henni.“ Lilja segist hafa áhyggjur af því hvernig þjálfa eigi kennara í að kenna með gervigreind, hún segir að nauðsynlegt sé að taka umræðuna um gervigreind í skólakerfinu og að það þurfi að gera strax. Kastljóss þáttinn má sjá hér í heild sinni. Gervigreind hefur á undanförnum árum fleygt fram og er farin að hafa rækileg áhrif á samfélagið. í Kastljósi kvöldsins var rætt um áhrif gervigreindar á íslenska tungumálið og hvaða ógnir eða tækifæri þessi aukna þróun getur haft í för með sér.