Krílahvolpar læra í gegnum leik

Krílahvolpar læra í gegnum leik

Á hverjum laugardegi er boðið í krílahvolpapartí, þar sem ungir hvolpar sýna sig og sjá aðra og þroskast í gegnum leik. Hundaþjálfari segir þetta ekki síður mikilvægt fyrir eigendurna. Níu til sextán vikna hvolpar eru gjaldgengir í krílahvolpapartíin sem eru haldin í Hundaakademíunni í Kópavogi. Þeir eru af öllum stærðum og gerðum og læra á lífið í gegnum leik. Ungir hvolpar, svokallaðir krílahvolpar, hittast á laugardögum - skemmta sér og þroskast undir leiðsögn hundaþjálfar. Hvolpaeigandi segir að sér hlýni í hjartanu þegar hún mætir í partíið. Kenna þeim að leika fallega „Hérna erum við að grípa félagsmótunarskeiðið hjá hvolpum sem er eitt mikilvægasta tímabil í þeirra lífi,“ segir Þórhildur Kristjánsdóttir hundaþjálfari hjá Hundaakademíunni. „Við erum að kenna hvolpunum að vera rólegir innan um aðra hunda. Við erum að kenna þeim að leika fallega.“ En svo er þetta líka mikilvægt fyrir eigendurna? „Nákvæmlega, líka það. Við erum að fara yfir mikla fræðslu hérna líka, merkjamál hunda og hvernig hundar leika og haga sér.“ Á námskeiðinu var Seifur 12 vikna golden retriever hvolpur með eiganda sínum Atla Má Guðfinnssyni. „ Þetta er fyrsti krílatíminn okkar þannig að núna erum við bara að leyfa honum að læra að leika við aðra hunda,“ sagði Atli. Krúttílegast í heimi Þarna voru líka þau Svanhildur Sif Haraldsdóttir og Moli Seifur, af tegundinni mini maltese og hann er 10 vikna. „Þetta er bara krúttílegast í heimi. Manni er svo hlýtt í hjartanu á eftir, ég hef áður verið hérna og þetta er bara best. Þeir læra líka svo mikið, slökun og leika við aðra hunda,“ sagði Svanhildur. Erlingur Einarsson og var með Mosa 16 vikna hvolp af tegundinni pembroke welsh corgi. Erlingur sagði tilgang þeirra aðallega að gefa Mosa tækifæri til að leika við aðra hvolpa. „En svo fæ ég fultl af ráðum og ráðleggingum í þessum tímum þannig að þetta hefur verið mjög gott fyrir okkur báða.“ Er mikilvægt fyrir Mosa að hitta aðra hunda? „Já, sérstaklega fyrstu vikurnar þegar félagsmótunin er sterkust.“

Spyr hvað stjórnvöld ætli að gera viðurkenni þau þjóðarmorð á Gaza

Spyr hvað stjórnvöld ætli að gera viðurkenni þau þjóðarmorð á Gaza

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir hernað Ísraela á Gaza bera öll merki þjóðarmorðs. Ísraelsher hefur drepið minnst 50 manns á Gaza það sem af er degi og þar af 26 í Gaza-borg. „Ég hef sagt að það sé um þjóðernishreinsanir að ræða og þetta ber öll einkenni þjóðarmorðs þegar verið er að skoða þetta,“ sagði Þorgerður Katrín í kvöldfréttum. Þjóðarmorð, eða hópmorð, er hugtak notað yfir það þegar reynt er að útrýma hópi fólks, þjóð, þjóðarbroti, trúarhópi eða öðru. Utanríkisráðherra segir hernað Ísraela á Gaza bera öll merki þjóðarmorðs. Dósent við lagadeild Háskóla Íslands segir alþjóðaskyldur Íslands hljóta að vera virkjaðar ef stjórnvöld telji svo vera. Hafa skyldu til að koma í veg fyrir þjóðarmorð Kári Hólmar Ragnarsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, segir lykilatriði skilgreiningar þjóðarmorðs ekki bara vera að það sé verið að myrða margt fólk heldur að það sé gert með þeim ásetningi að útrýma hópnum í hluta eða heild. Ásetningurinn er það sem jafnan reynist erfiðast að sanna fyrir alþjóðadómstólum. Utanríkisráðherra fullyrðir að á Gaza eigi sér stað þjóðernishreinsanir en að hernaðurinn beri öll merki þjóðarmorðs. Þessi orð virðast valin af kostgæfni. Um þjóðarmorð gildir sérstakur samningur í alþjóðalögum, sem gæti skyldað Ísland til að grípa til aðgerða. „Í tengslum við þjóðarmorð þá hafa öll ríki skyldur að alþjóðalögum. Skyldu til að koma í veg fyrir þjóðarmorð og beita sér að því marki sem þau framast geta til að gera það,“ segir Kári. „Ef íslensk stjórnvöld eru á þeirri skoðun að og eru tilbúin að fallast á að aðstæður þarna beri öll merki þjóðarmorðs, þá hljóta þessar skyldur Íslands að vera orðnar virkar og þá er eiginlega orðin næsta spurning mín til stjórnvalda hvað nákvæmlega séu stjórnvöld að gera og er það nóg að mati stjórnvalda, svona í fyrsta kasti, til að uppfylla þær skyldur?“

EM í dag: Ísland mætir gestgjöfum Póllands

EM í dag: Ísland mætir gestgjöfum Póllands

Þriðji leikur Íslands á EM karla í körfubolta er í kvöld þegar liðið mætir Póllandi. Íslenska liðið leitar enn að sínum fyrsta sigri á EM. Pólland var í þriðja styrkleikaflokki og Ísland í þeim sjötta þegar dregið var í riðla fyrir mótið. Pólverjar settu tóninn strax í fyrsta leik sínum á mótinu þegar liðið vann Slóveníu, 95-105. Pólska liðið mætti því Ísraelska í gær og vann 66-64 eftir spennandi leik. Pólska liðið er því taplaust á heimavellinum. Pólland vann til verðlauna á þremur Evrópumótum í röð á 7. áratugnum, silfur árið 1963 og brons 1965 og 1967. Liðið hefur ekki unnið til verðlauna síðan en hafnaði í fjórða sæti á EM 2022. Leikur Íslands og Póllands hefst klukkan 18:30 og verður í beinni útsendingu á RÚV. Stofan hitar upp frá 17:50. Tveir leikir til viðbótar í D-riðli Það verður hins vegar nóg um að vera í D-riðli því Slóvenía og Belgía mætast klukkan 12:00, sá leikur verður í beinni á RÚV. Svo mætast Ísrael og Frakkland klukkan 15:00 og verður sá leikur sýndur beint á RÚV 2. Til að missa ekki af neinu mælum við með því að fylgja RÚV Íþróttum á Instagram , Facebook og á X .

Pólland lagði Ísrael að velli eftir spennandi lokahluta

Pólland lagði Ísrael að velli eftir spennandi lokahluta

Pólland hafði betur gegn Ísrael á EM karla í körfubolta í kvöld, 66-64. Pólverjar höfðu frumkvæðið framan af og leiddu með ellefu stigum í hálfleik, 37-26. Það var svo um miðjan þriðja leikhluta að Ísraelar sóttu í sig veðrið og söxuðu hratt á forskot Póllands. Þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta komust Ísraelar yfir, 48-49, og spennan jókst. Liðin skiptust á að ná forystunni í fjórða leikhluta og þegar 35 sekúndur lifðu leiks var staðan jöfn, 64-64. Jordan Loyd skoraði þá tvö stig fyrir Pólland sem sigraði, 66-64. Ísland mætir Póllandi í þriðja leik sínum á EM annað kvöld klukkan 18:30. Á EM-síðu RÚV má sjá stöðuna í riðlunum EPA / Jarek Praszkiewicz