Eitt líkanna sem Hamas skilaði er ekki af neinum gísla þeirra
Eitt líkanna sem Hamas hefur afhent Ísraelum eftir að samið var um vopnahlé er ekki af neinum þeirra gísla sem voru í haldi samtakanna. Þessu greindi ísraelski herinn frá í dag. Þar kom fram að greining á líkunum fjórum sem Hamas afhenti í gær hafi ekki verið af neinum þeirra sem Hamas tók í gíslingu 7. október 2023. Hamas hefur afhent átta lík. Ísraelar krefjast þess að Hamas standi við fyrirheit og afhendi einnig lík 20 gísla sem voru í þeirra haldi. Vopnahléssamkomulagið kveður á um að Ísraelar opni fyrir flutning nauðþurfta um landamærin við Rafah inn á Gaza. Vonir standa til að það verði gert í dag. Ekki er þó einhugur um það og hefur Ben Gvir, ráðherra í ríkisstjórninni, hótað að koma í veg fyrir að nauðþurftir berist til Gaza ef Hamas skilar ekki líkum allra Ísraela. Ísraelska ríkissjónvarpið KAN segir að ríkisstjórnin hafi ákveðið að opna landamærin í Rafah eftir að Hamas tilkynnti að fjögur lík yrðu afhent í dag.