Bubbi spyr hvernig stjórnmálamenn gátu látið íslenskuna „drabbast niður, tötrum klædda, í ræsið“
Hvar er sómakennd ykkar, kjarkur og þor, spyr Bubbi Morthens tónlistarmaður þingmenn og ráðherra. Hann gagnrýnir þá í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag og segir að yfirlýsingum stjórnmálamanna um ágæti íslenskrar tungu hafi ekki fylgt aðgerðir. „Hvernig getið þið sagt að íslenskan sé ykkur kær en á sama tíma langalengi látið hana drabbast niður, tötrum klædda, í ræsið?“ Í grein sinni beinir Bubbi sjónum sínum að skólunum, bókum og innflytjendum. Hann segir stjórnmálamenn nánast ekkert hafa gert til að sjá til þess að innflytjendur lærðu málið. Bubbi segir að margt sé vel gert en stór vá sé fyrir dyrum: „tungumálið okkar er fast í kviksyndi aðgerðaleysis. Ef ef þing og þjóð leggjast á eitt getum við ennþá snúið þessari hrollvekjandi þróun við.“ Bubbi segir ekki hægt að benda á skólana. „Skólakerfið hefur verið allan tímann á ykkar snærum - eða kannski væri réttast að tala um snöru.“ Hann vísar til þess að bóklestur sé hruninn í samkeppni við símann. Þó sé bóklestur undirstaða þess að fólk geti lært að nota tungumálið frá unga aldri. „Þið hafið viljandi skorið niður allt í kringum bækur. Eini ráðherrann sem gerði eitthvað til að sporna við var Lilja Alfreðsdóttir. Í löndunum í kringum okkur eru peningar lagðir fram til að kaupa bækur til að vernda tungumálið, hafa hlaðborð af bókum til boða í skólum, styrkja bókasöfn, auka kennslu innflytjenda, fá þau eins og hratt og auðið er til að læra málið.“