Vilja losna við lífsýni sem tengt var Ásu

Vilja losna við lífsýni sem tengt var Ásu

Verjendur hins meinta raðmorðingja Rex Heuermann, sem giftur er íslenskri konu, hafa farið fram á að lífsýni úr hárum og öðrum gömlum lífsýnum sem fundust á líkum kvenna í Gilgo Beach, verði ekki notuð í réttarhöldunum gegn honum. Dómari hefur þá kröfu til skoðunar en ákvörðun hans gæti haft mikil áhrif á málið.

Tíu algengar mýtur um næringu: Hvað er rétt og hvað er rangt?

Tíu algengar mýtur um næringu: Hvað er rétt og hvað er rangt?

Það er varla hægt að opna samfélagsmiðla eða netsíður án þess að fá upp myndskeið eða pósta sem innihalda rangar upplýsingar um fæðu og næringu. Sum þessara skilaboða eru ævagamlar lífsseigar mýtur en önnur eru nýrri af nálinni og mætti líkja við tískufyrirbrigði. Við heyrum til dæmis aftur og aftur að kolvetni séu slæm og að lífrænt sé alltaf best en seinni ár að dýrafita sé hollari en önnur og jafnvel að næringarfræðingar séu að eyðileggja heilsu fólks svo eitthvað sé nefnt. En hvað er satt og hvað er uppspuni? Mikilvægt að taka ákvarðanir út frá réttum upplýsingum Næringarfræðingurinn Guðrún Nanna Egilsdóttir heldur úti Instagram-reikningnum Næring og jafnvægi þar sem hún veitir fræðslu- og upplýsingar um næringu og ýmislegt sem henni tengist. Hún segir að það sé mikilvægt að skoða helstu mýtur um næringu, og leiðrétta þær, svo að fólk geti tekið meðvitaða ákvörðun út frá réttum upplýsingum. Það sé mikilvægt að fólk taki ekki ákvarðanir varðandi eigin heilsu út frá einhverju sem sé rangt. Mýturnar séu oft mjög háværar og hljómi sannfærandi sem getur valdið því að fólk hræðist eitthvað sem sé alger óþarfi. „Það getur því einfaldlega búið til óheilbrigt samband við ýmis matvæli sem eru kannski bara mjög næringarrík. Eða þá í hina áttina að fólk getur farið að borða meira af einhverju sem ætti í raun að vera í hófi.“ Rangar upplýsingar geta reynst skaðlegar Sumar af þessum röngu upplýsingum geta verið skaðlausar en svo eru aðrar sem geta reynst fólki lífshættulegar, segir Guðrún. Hún nefnir sem dæmi ýmsa vinsæla kúra sem geti verið afar varasamir. Slíkir kúrar gangi þá út að innbyrða mikið magn af fæðutegundum sem geti haft slæm áhrif á heilsuna í miklu magni. Á sama tíma sé fólki sagt að sleppa öðrum mikilvægum matvælum. „Ef fólk fer að sleppa stórum hluta af matvælum þá er það í meiri hættu á að missa af mikilvægum næringarefnum sem líkaminn okkar þarf,“ segir Guðrún. Mistúlkun rannsóknarniðurstaðna og gróðavon rótin Hvernig myndast mýtur á borð við þessar sem þú nefnir og af hverju eru þær svona lífsseigar? Græðir einhver á þeim eða er þetta hrein fáfræði? „Oft eru þetta aðilar sem mistúlka rannsóknir eða snúa út úr þeim hvort sem það er ætlunin eða ekki. En oft snýst þetta líka bara um gróða þar sem fólk býr til vandamál og reynir síðan að selja lausnina. Svo deilir fólk þessu áfram og þannig er þetta endurtekið svo mikið að fólk fer að trúa þessu og þannig verður mýtan lífseig,“ segir Guðrún. „Hræðslufaktorinn hjálpar líka oft til við að halda þessum mýtum svona lífsseigum. Mjög oft er þetta í rauninni nánast bara hjátrú og óskhyggja sem er haldið uppi af fólki sem græðir á því að almenningur viti ekki betur.“ Hvað er satt og hvað er ósatt? Að sögn Guðrúnar sýna rannsóknir að það sé töluvert meira af röngum næringarupplýsingum á netinu heldur en réttum og því sé gott að hafa varann á þegar fólk skrunar í gegnum samfélagsmiðla. Það beri til dæmis að hafa varann á ef sá sem veitir næringarráð titlar sig sem „þerapista“ eða sé með orðið „holistic“ í starfsheitinu. Starfsheitið næringarfræðingur er lögverndað og það eru einungis um 100 næringarfræðingar á landinu, segir Guðrún. Þá sé einnig gott að velta fyrir sér hvort manneskjan sé mögulega að reyna að selja þér eitthvað og hafi hag af því að telja þér trú um eitthvað. „Töfralausnin eru ekki til“ Ýktar staðhæfingar eða hræðsluáróður er annað sem Guðrún segir að eigi að vekja grunsemdir hjá fólki. Það að einhver fæða valdi til dæmis alfarið sjúkdómum eða geti þvert á móti læknað þá og sé einhver töfralausn. Taka eigi upplýsingum með fyrirvara, ef eitthvað hljómar mjög ótrúlega og jafnvel þvert á það sem það hafi heyrt hingað til. „Raunveruleikinn er því miður aðeins minna spennandi því töfralausnin er ekki til, heldur er nauðsynlegt að leggja inn í heilsubankann smátt og smátt, til dæmis með hreyfingu, góðum svefni, fjölbreyttri næringu, að reyna að draga úr streitu, samveru með fjölskyldu og ástvinum og svo framvegis.“ Á hverju eru réttar upplýsingar byggðar? Næringarfræðingar byggja sínar upplýsingar á vísindarannsóknum í heild, segir Guðrún. Tekin séu saman öll fyrirliggjandi vísindaleg gögn og skoðað hlutlaust hvað heildin segir. Best sé að horfa á hvað samantekt rannsókna segir og leita upplýsinga hjá traustum aðilum. Á Íslandi byggja upplýsingar frá síðum eins og Embætti landlæknis og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu á traustum heimildum sem landsmenn geti treyst að séu réttar. Tíu útbreiddar mýtur um næringu 1. Kolvetni eru óholl og ætti að borða í hófi Kolvetni eru einn af þremur orkugjöfum líkamans, ásamt próteini og fitu og eru mikilvægur partur af eðlilegri líkamsstarfsemi okkar. Þau eru til að mynda aðalorkugjafi vöðva og heila og eru sérstaklega mikilvæg fyrir líkamlega virkni og einbeitingu. Heilinn notar til dæmis eingöngu glúkósa sem orku í venjulegu ástandi, sem fæst úr kolvetnum. Gæði kolvetna skipta hins vegar máli en kolvetni eins og ávextir, grænmeti, heilkorn (til dæmis brún hrísgrjón, rúgur og kínóa) og baunir hafa jákvæð heilsufarsleg áhrif. Unnin kolvetni eins og kex, kökur, snakk, hvítt brauð og hvít hrísgrjón í of miklu magni hafa aftur á móti óæskileg áhrif á heilsuna til lengri tíma. 2. Fræolíur eru slæmar fyrir heilsuna og ætti að forðast Fræolíur finnast í mörgum næringarsnauðum matvælum eins og sætindum, kexi, snakki, skyndibita og slíku. Þau matvæli eru þó ekki óholl vegna fræolíanna heldur vegna annarra þátta eins og mikils magns sykurs, salts, fitu og svo framvegis. Fræolíur eru líka mismunandi að gæðum. Það fást til að mynda kaldpressaðar repjuolíur í glerflöskum út í búð sem er æskilegra að velja fram yfir repjuolíur í glærum plastflöskum. Rannsóknir sýna skýrt að það að elda hollan mat upp úr fræolíum eins og repjuolíu hefur góð heilsufarsleg áhrif, enda er hún fjölómettuð fita sem hefur til dæmis jákvæð áhrif á hjarta- og æðakerfi. Þetta virðist vera ein algengasta næringarmýtan um þessar mundir, sem er áhugavert í ljósi þess hve rannsóknir sýna skýrt fram á jákvæð áhrif þeirra. 3. Ógerilsneydd mjólk er mun hollari en gerilsneydd mjólk Aðeins smávægilegur munur er á nokkrum næringarefnum í gerilsneyddri mjólk miðað við ógerilsneydda, en munurinn er verulega lítill. Ógerilsneydd mjólk getur einnig innihaldið sjúkdómsvaldandi gerla sem geta valdið alvarlegum veikindum. Við gerilsneyðingu er mjólkin hituð upp í ákveðinn tíma, oftast í 62-65 gráður í 30 mín eða 72-78 gráður í 15-20 sek og við það eyðast sjúkdómsvaldandi gerlar en næringarefnin haldast svo gott sem eins. Ferlið dregur einnig úr fjölda örvera sem geta skemmt mjólkina og eykur geymsluþol. Fyrir fólk sem á kýr er þó ekkert því til fyrirstöðu að drekka mjólkina beint en vandinn hefst þegar mjólkin er sett á flöskur, flutt á milli staða og seld, þá fjölgar örverunum mjög hratt. Á Íslandi er ólöglegt að selja ógerilsneydda mjólk og er það til að vernda neytendur gegn veikindum. 4. Salt er gott fyrir heilsuna og æskilegt að drekka nóg af saltdrykkjum Salt er nauðsynlegt steinefni sem líkaminn þarf í litlu magni til að viðhalda eðlilegu vökvajafnvægi, vöðvastarfsemi og taugaboðum. Hins vegar fá flestir meira en nóg af því úr fæðunni án viðbótar, og lang flestir þurfa frekar að huga að því að draga úr saltneyslu. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt tengsl milli of mikillar saltneyslu og hækkaðs blóðþrýstings, sem eykur hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Að drekka drykki með söltum getur þó verið gott við sérstakar aðstæður til dæmis hjá íþróttafólki sem svitnar mikið yfir langan tíma og við uppköst og niðurgang því þá missir líkaminn einnig sölt. Í þeim tilfellum getur líkaminn misst mikið af söltum sem þarf að endurnýja. En fyrir venjulegt fólk í daglegu lífi er hins vegar engin þörf á aukinni saltneyslu, þvert á móti ættu flestir að draga úr henni. 5. Mettuð fita eins og smjör er mjög holl Þessi mýta hefur verið áberandi á samfélagsmiðlum að undanförnu og um að gera að taka slíkum upplýsingum með fyrirvara frá áhrifavöldum. Smjör inniheldur mikið magn af mettaðri fitu og rannsóknir hafa ítrekað sýnt að of mikil neysla mettaðrar fitu eykur hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum. Það er vegna þess að mettuð fita hækkar LDL-kólesteról í blóði, sem tengist aukinni áhættu á kransæðasjúkdómum. Þess vegna er ráðlagt að velja sem mest ómettaða fitugjafa, sem finnast í fljótandi jurtaolíum, feitum fiski, lýsi, hnetum og fræjum. Með því að auka hlut mjúkrar fitu í fæði á kostnað harðrar fitu má draga úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum ásamt því að fá lífsnauðsynlegar fitusýrur og fituleysanleg vítamín. Því mýkri sem fituríkar vörur eru við ísskápshita, því meira innihalda þær gjarnan af ómettaðri fitu. 6. Mataræði forfeðra okkar var það besta fyrir heilsuna Þó að það sé bæði áhugavert og aðdáunarvert hvernig forfeður okkar fundu leiðir til að lifa af, þá þýðir það þó ekki endilega að mataræðið sem þeir lifðu á sé best fyrir heilsuna. Á Íslandi þurfti fólk að finna leiðir til að varðveita mat svo hann myndi ekki skemmast. Úr urðu skapandi og snjallar lausnir eins og söltun, reyking, súrsun, kæsing og þurrkun sem gerði fólki kleift að eiga birgðir yfir veturinn. Margar geymsluaðferðanna, eins og söltun og reyking eru þó tengdar aukinni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum og sumum tegundum krabbameina. Reyktur og saltaður matur getur vissulega verið mjög bragðgóður og hluti af menningararfi okkar, en æskilegt er að neyta hans í hófi heilsunnar vegna. Þó voru líka mörg næringarrík matvæli sem forfeður okkar neyttu eins og til dæmis skyr, harðfiskur, rúgur, söl, rófur, gulrætur, fjallagrös og ber. Við getum verið stolt af útsjónarsemi og seiglu forfeðra okkar en það þýðir ekki að við ættum að setja mataræði þeirra á einhvern stall. Við getum þó vissulega byggt á arfleifð forfeðranna með því að velja það besta úr menningunni og bæta við nýrri þekkingu sem stuðlar að betri heilsu. 7. Lífræn matvæli eru alltaf betri en hefðbundin Rannsóknir sem bera lífræn matvæli saman við hefðbundin hafa ekki fundið yfirburði lífrænna matvæla, og ekki heldur hefðbundinna matvæla umfram lífræn matvæli. Ekki er hægt að staðhæfa neitt um yfirburði nema skoða einstök matvæli og næringar- eða mengunarefni. Þungmálmar eru þó algengir í lífrænum matvælum og sum þeirra innihalda hærra magn ákveðinna þungmálma heldur en hefðbundin sambærileg matvæli. Rannsóknir sýna að bæði hefðbundið og lífrænt ræktað grænmeti og ávextir innihalda lágmarksmagn af skordýraeitri. Rannsóknir sem sýna ávinning af neyslu þessara matvæla eru flestar gerðar á hefðbundnu grænmeti og ávöxtum. Að borða meira af þeim matvælum er því hollt fyrir þig, sama hvernig þau eru ræktuð. 8. Soja veldur kvenlegum eiginleikum hjá körlum Margar mýtur eru í gangi um soja en hér vel ég eina til að fara yfir, sem er sú mýta að soja valdi kvenlegum eiginleikum hjá karlmönnum. Ástæðan fyrir misskilningnum er sú að soja inniheldur plöntuefni sem kallast ísóflavón, sem líkist estrógeni í byggingu en hefur mjög lítil áhrif. Byggingin á plöntu-estrógeninu er svipuð og á estrógeni en plöntu-estrógenið binst ekki eins sterkt við estrógen viðtaka og hefur því ekki eins áhrif í líkamanum. Soja er eina plöntupróteinið sem inniheldur allar níu lífsnauðsynlegu amínósýrurnar í þeim hlutföllum sem við þörfnumst eins og dýraprótein. Það er auk þess ríkt af kalki, magnesíum, trefjum og inniheldur járn og sink. Rannsóknir benda til þess að soja hafi ýmist jákvæð eða hlutlaus áhrif á heilsuna. 9. Glúten hefur slæm áhrif á heilsu og ætti að forðast Þetta er algengur misskilningur sem hefur fest sig í sessi á samfélagsmiðlum og meðal ákveðinna heilsustefna, en rannsóknir sýna að glúten er fullkomlega öruggt og næringarríkt fyrir langflesta. Glúten er í raun prótein sem finnst í korni eins og hveiti, byggi og rúgi og er það sem gefur brauðinu mjúka áferð og uppbyggingu. Í raun er aðeins um 1% fólks með selíak (e. celiac disease) og glúten getur haft verulega slæm áhrif á heilsu þess, en fyrir meirihluta fólks hefur glúten engin neikvæð áhrif á heilsu. Þvert á móti getur neysla á heilkorni, sem inniheldur glúten, verið mikilvæg uppspretta trefja, B-vítamína, steinefna og annarra gagnlegra efna sem stuðla að góðri meltingu, hjartaheilsu og jafnvel minni líkum á krónískum sjúkdómum. Næringarrík matvæli sem innihalda glúten og hafa jákvæð áhrif á heilsuna eru til dæmis heilhveiti, bygg, rúgur, bulgur, spelt og seitan. 10. Næringarráðleggingar hafa haft slæm áhrif á lýðheilsu Þetta er þrálát mýta hjá ákveðnum hópi á samfélagsmiðlum þar sem bent er á næringarráðleggingar sem sökudólg á bak við ýmsa algenga lífsstílssjúkdóma. Það stenst hins vegar ekki þar sem samkvæmt landskönnun á mataræði fylgja nánast engir landsmenn næringarráðleggingum Embætti Landlæknis. Til að mynda náðu aðeins 2% landsmanna að borða ráðlagðan dagskammt af ávöxtum og grænmeti og fjórðungur þátttakenda náði að uppfylla viðmið um heilkornaneyslu. Þá er einnig mjög áhugavert að niðurstaða tiltölulega nýrrar rannsóknar sýndi að það að tileinka sér mataræði í samræmi við nýjustu norrænu næringarráðleggingarnar (sem okkar ráðleggingar eru byggðar á) geti stuðlað að því að fólk lifi lengur. Gagnlegar vefsíður: Ráðleggingar Landlæknisembættisins um næringu Norrænar ráðleggingar um mataræði Næring og jafnvægi – Instagram-síða Guðrúnar Nönnu