Skammarþríhyrningurinn: Fyndið, einlægt og óvægið í ádeilu sinni á samtímann

Skammarþríhyrningurinn: Fyndið, einlægt og óvægið í ádeilu sinni á samtímann

Katla Ársælsdóttir skrifar: Við erum stödd í óráðinni framtíð. Litla svið Borgarleikhússins hefur fengið á sig nýja mynd og er nú nýtt safn í Kringlunni. Áhorfendum hefur verið boðið á opnun safnsins, en á opnuninni ætla sérfræðingar og starfsfólk þess að fjalla um „myrka“ eða öllu heldur litríka sögu hins svokallaða „woke“-faraldurs sem geisaði á Íslandi á árunum 1970-2030. Þau ætla að leiða okkur að sannleikanum. Þegar gengið er inn í salinn sjást minjagripir frá þessum tíma, eins og einhyrningagríma, kynlífshjálpartæki, grímur og sótthreinsispritt. Þannig er hið huglæga „woke“ borið saman við kórónuveiruna eins og þetta séu tveir skæðir faraldrar. Starfsfólk lýsir þessum slæmu tímum í íslensku samfélagi og að fólk hafi státað sig af því að Íslandi væri gjarnan lýst sem jafnréttisparadís. Þau setja upp leikþætti sem sýna þann brenglaða raunveruleika sem eitt sinn var. Í hliðarveruleikanum sem hér er búinn til hefur bakslagið náð markmiði sínu. Wokeið er dautt, kynsvikarar og skaðlegur regnbogavarningur heyrir nú sögunni til. Leikhúsið er líka á bak og burt og húsnæðið nú hluti af Kringlunni, enda voru alvarlega ímyndunarveikir kynvillingar í leikhúsinu, sem er þúsund ára gamalt perversion, eins og starfsfólkið gerir grein fyrir. Um er að ræða öfgakennda og litlausa tilveru þar sem ríkir „jafnvægi en ekki jafnrétti“. Konur eru inni á heimilunum í stað þess að vera úti á vinnumarkaði og hinsegin fólk er komið inn í skápinn á ný. Það sem flækir vinnu sérfræðinga safnsins er að helstu heimildum þessa tímabils hefur verið breytt eða eytt og því byggist sérfræðikunnátta þeirra á óáreiðanlegum heimildum og misskilningi, til dæmis hið smitandi hommagen og að Hinsegin kaupfélagið hafi markaðssett mannréttindi sem lífsstíl svo hægt væri að selja meiri regnbogavarning. Verkið er samið af leikhópnum Stertabenda en leikstjóri þess er Gréta Kristín Ómarsdóttir og Egill Andrason sá um dramatúrgíu og hljóðmynd. Verkið fellur undir camp-fagurfræði sem á rætur sínar að rekja til hinsegin menningar. Fagurfræði af þessu tagi hefur lengi verið notuð af hinsegin listafólki sem viðnám við þröngsýna staðla samfélagsins með listrænni og ýktri leikgleði. Sýningin er því óhefðbundin í uppbyggingu, ýkt og kaldhæðin. Leikurinn er orkumikill og yfirdrifinn en sömu orð má nota til að lýsa búningum og sviðsmynd í þannig verkum, svo dæmi sé nefnt. Það er mikið gert grín að skaðlegum hugmyndum um hinsegin fólk og það er gert með leikþáttum starfsfólksins. Ein þeirra er fjölskyldusena þar sem hippalegi sonurinn kynnir fjölskyldu sína fyrir kærasti sínu, sem er fúlt og pirrað vegna þess að þau skilja hán ekki. Móðirin segir til að mynda setningar eins og „hún er hán“ og fleira í þeim dúr sem fer mjög fyrir brjóstið á unga parinu. Önnur minnisstæð sena fjallar um mann sem fer í kynleiðréttingu til þess að komast inn á kvennaklósett svo hann geti nauðgað konum þar inni, sem hljómar hrikalega en var mjög fyndin. Með leikþáttunum tveimur er gert grín að stereótýpískum og hættulegum hugmyndum um hinsegin fólk með ýmiss konar hætti. Þau eru sett fram sem ósanngjörn, viðkvæm blóm en einnig ofbeldismenn sem leggja heilmikið á sig til að fremja glæpi. Þegar á leikþáttunum stendur flakka persónurnar milli þess að vera í karakter og ekki. Þær brjóta sífellt fjórða vegginn og kalla það varrúðarráðstöfun. Þær leyfa hvorki áhorfendum né hvert öðru að gleyma stað og stund. Því endurtaka þau gjarnan setninguna: „Klukkan er… og við erum í Kringlunni.“ Við megum ekki við því að sogast of langt inn í þessa hættulegu fortíð og því hrifsa þau okkur og sig sjálf aftur í litlausan raunveruleikann. Leikararnir klæðast gráum einkennisbúningum en yfir þá klæðast þeir búningum sem virka eins og svuntur þegar þeir fara með leikþættina. Útfærslan er ótrúlega vel heppnuð og heldur okkur enn í gráa veruleikanum. Búningar og sviðsmynd eru í umsjá Evu Signýjar Berger og Kristín Ferrell aðstoðaði við búninga. Ólafur Ágúst Stefánsson hannar ljósin sem taka sig vel út í sviðsmynd Evu Signýjar. Efniviður verksins er að miklu leyti fenginn úr samtímanum og skýrar skírskotanir eru í bæði íslenskt og alþjóðlegt samhengi. Orðanotkun leikaranna er gjarnan tilvitnanir í opinbera umræðu og skoðanir sem deilt er á samfélagsmiðlum. Þau klæðast til að mynda hvítum bolum sem á stendur Frelsi. Slíkir bolir vöktu mikla athygli fyrir stuttu þegar Samband ungra Sjálfstæðismanna hugðist gefa þá á sambandsþingi sínu í byrjun mánaðar en þeir vísa til klæðnaðar öfga-hægri áhrifavaldsins Charlies Kirk. Þetta er bersýnileg tilvísun í Ísland í dag. Þessi tilbúna framtíðarsýn er því ef til vill ekki svo fjarri okkur eftir allt saman. Sex leikarar fara með hlutverk í leikritinu. Reynsluheimur þeirra er ólíkur og þau miðla honum áfram og eiga öll góða spretti í ákveðnum senum. Framkoma þeirra Árna Péturs Guðjónssonar og Fannars Arnarssonar stóð þó upp úr. Leikgleði Árna Péturs sem og einlægni Fannars hreif við áhorfendum. Endalok sýningarinnar voru eilítið langdregin og dramatísk en engu að síður mjög áhrifarík. Skilaboðin eru sterk. Við sem samfélag stöndum á krossgötum og þurfum að taka ákvörðun. Í þeirri sveiflu sem orðið hefur í aukinni íhaldssemi á undanförnum árum hafa fordómar gegn jaðarsettum hópum orðið sífellt meira áberandi. Tilveruréttur þeirra er dreginn í efa og sums staðar má segja að mannréttindi séu á undanhaldi. Skammarþríhyrningurinn vekur upp ýmsar spurningar sökum þess. Ísland hefur lengi státað sig af stimplinum „jafnréttisparadís“ en er sá stimpill réttlætanlegur? Verkið er fyndið en einnig einlægt og jafnvel sorglegt á köflum og leiðir áhorfendur í gegnum tilfinningarússíbana. Kaldhæðnin er ríkjandi innan þess, sér í lagi í fyrri hluta. Tvíræðni verksins ýtir undir húmor þess á sama tíma og það dýpkar heiminn sem er skapaður. Aðstandendur þess eru óhræddir og óvægnir í ádeilu sinni á samtíma okkar og hvert stefnt er ef ekki er vel að gáð. Katla Ársælsdóttir, sviðslistagagnrýnandi Víðsjár á Rás 1, fjallar um Skammarþríhyrninginn sem sýndur er í Borgarleikhúsinu. „Aðstandendur þess eru óhræddir og óvægnir í ádeilu sinni á samtíma okkar og hvert stefnt er ef ekki er vel að gáð.“ Katla Ársælsdóttir flutti pistil sinn í Víðsjá á Rás 1 sem finna má í spilaranum hér fyrir ofan. Katla lærði leikhúsfræði í Trinity College í Dublin og bókmenntafræði í Háskóla Íslands.

Þingið kaus með embættismissi forsetans og herinn tekur völdin

Þingið kaus með embættismissi forsetans og herinn tekur völdin

Her Madagarskar hefur tekið völdin í landinu eftir að þingið kaus með embættismissi forsetans Andry Rajoelina. Þetta hefur AFP-fréttaveitan eftir yfirmanni CAPSAT-deildar hersins. CAPSAT lýsti því yfir um helgina að hún hefði tekið yfir stjórn hersins. Fjöldamótmæli hafa skekið Madagaskar svo vikum skiptir og krafan um afsögn Rajoelina hefur orðið sífellt háværari. Forsetinn hefur ekki orðið við þeirri kröfu og hann flúði nýverið land. Stjórnlagadómstóll á enn eftir að staðfesta embættismissi forsetans. CAPSAT lék lykilhlutverk í valdaráni á Madagaskar 2009 sem greiddi leið Rajoelina til valda. Hann var áður borgarstjóri í höfuðborginni Antananarivo. Her- og lögreglumenn fá sæti í nefnd um stjórn landsins Í yfirlýsingu ofurstans Michael Randrianirina, sem er yfirmaður CAPSAT, segir að til standi að setja á laggirnar sérstaka nefnd sem fer með stjórn landsins. Í henni eiga herforingjar og fulltrúar lögreglunnar að fá sæti. Með tíð og tíma gætu embættismenn bæst í þann hóp. „Þessi nefnd mun sinna störfum forsetaembættisins,“ segir í yfirlýsingu Randrianirina. Innan fárra daga verði ríkisstjórn skipuð almennum borgurum sett á fót. Ofurstinn greindi frá þessu aðeins nokkrum mínútum eftir að neðri deild þingsins kaus með embættismissi forsetans. Fráfarandi forseti reyndi að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu þingsins Forsetaembættið lýsti því yfir að fundur þingsins hefði ekki verið haldinn í samræmi við lög. Nokkrum klukkustundum fyrr leysti forsetinn upp þingið til þess að hindra fundinn. Tvo þriðju hluta atkvæða þurfti til þess að tillaga um embættismissi forsetans yrði staðfest. Það stóð aldrei tæpt. 130 kusu með tillögunni af 163 þingmönnum. Líkt og áður segir á stjórnlagadómstóll eftir að staðfesta niðurstöðuna. Rajoelina greindi sjálfur frá því í gær að hann væri í öruggu skjóli, án þess þó að greina frá því hvar.

Þingið samþykkti embættismissi forsetans og herinn tekur völdin

Þingið samþykkti embættismissi forsetans og herinn tekur völdin

Her Madagaskar hefur tekið völdin í landinu eftir að þingið samþykkti embættismissi forsetans Andry Rajoelina. Þetta hefur AFP-fréttaveitan eftir yfirmanni CAPSAT-deildar hersins. CAPSAT lýsti því yfir um helgina að hún hefði tekið yfir stjórn hersins. Fjöldamótmæli hafa skekið Madagaskar svo vikum skiptir og krafan um afsögn Rajoelina hefur orðið sífellt háværari. Forsetinn hefur ekki orðið við þeirri kröfu og hann flúði nýverið land. Stjórnlagadómstóll á enn eftir að staðfesta embættismissi forsetans. CAPSAT lék lykilhlutverk í valdaráni á Madagaskar 2009 sem greiddi leið Rajoelina til valda. Hann var áður borgarstjóri í höfuðborginni Antananarivo. Her- og lögreglumenn fá sæti í nefnd um stjórn landsins Í yfirlýsingu ofurstans Michael Randrianirina, sem er yfirmaður CAPSAT, segir að til standi að setja á laggirnar sérstaka nefnd sem fer með stjórn landsins. Í henni eiga herforingjar og fulltrúar lögreglunnar að fá sæti. Með tíð og tíma gætu embættismenn bæst í þann hóp. „Þessi nefnd mun sinna störfum forsetaembættisins,“ segir í yfirlýsingu Randrianirina. Innan fárra daga verði ríkisstjórn skipuð almennum borgurum sett á fót. Ofurstinn greindi frá þessu aðeins nokkrum mínútum eftir að neðri deild þingsins samþykkti embættismissi forsetans. Fráfarandi forseti reyndi að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu þingsins Forsetaembættið lýsti því yfir að fundur þingsins hefði ekki verið haldinn í samræmi við lög. Nokkrum klukkustundum fyrr leysti forsetinn upp þingið til þess að hindra fundinn. Tvo þriðju hluta atkvæða þurfti til þess að tillaga um embættismissi forsetans yrði staðfest. Það stóð aldrei tæpt. 130 þingmenn af 163 voru fylgjandi tillögunni. Líkt og áður segir á stjórnlagadómstóll eftir að staðfesta niðurstöðuna. Rajoelina greindi sjálfur frá því í gær að hann væri í öruggu skjóli, án þess þó að greina frá því hvar.