Sonur stofnanda Mango-veldisins grunaður um að hafa myrt pabba sinn í fjallgöngu
Lögregla á Spáni rannsakar enn andlát Isac Andic sem lést í desember. Hann stofnaði Mango-tískuverslanakeðjuna sem er meðal þeirra stærstu í heimi. Andic var í fjallgöngu með Jonathan, elsta syni sínum, þegar hann lést. Þá komst lögregla að þeirri niðurstöðu að Andic hefði látist af slysförum en síðan þá hefur vaknað grunur um að sonurinn hafi myrt hann. Andic féll 100 metra niður fjallshlíð í Montserrat-fjöllunum nærri Barcelona. Eini maðurinn sem varð vitni að því var sonurinn Jonathan. Hann hlaut réttarstöðu vitnis við rannsókn lögreglu á andlátinu en eftir mótsagnakenndan framburð í tveimur skýrslutökum var því breytt í stöðu grunaðs manns. Spænskir fjölmiðlar hafa fjallað um rannsókn andlátsins. El Pais sagði í gær að grunur hefði vaknað um að það væri ekki af slysförum. La Vangardia sagði að rannsóknardómari hefði formlega breytt réttarstöðu sonarins í síðasta mánuði og að lögregla væri að rannsaka gögn úr farsíma hans. Mango-veldið hefur vaxið mjög síðan fyrsta verslunin var opnuð 1984. Fyrirtækið er með 16.400 starfsmenn á 120 stöðum víða um heim. Auður Andic-fjölskyldunnar er metinn á 4,5 milljarða dollara.