Ísteka sækist eftir nýju leyfi til blóðtöku næsta sumar
Starfsleyfi fyrirtækisins Ísteka til að taka blóð úr fylfullum hryssum rann út þann 5. október. Enginn blóðtaka er í gangi sem stendur þar sem blóðtaka á sér stað á sumrin og fram á haust. Þeim er lokið þetta árið. Kristinn Hugason, samskiptastjóri Ísteka, segir að fengið verði nýtt starfsleyfi frá ríkinu fyrir næsta sumar. Ekki sé þó útséð með hvort nýtt leyfi fylgi reglugerð EFTA númer 460/2017 sem fjallar um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni. „Kjarni málsins er að við viljum fá reglugerðinni hnekkt,“ segir Kristinn. Ísteka höfðaði áður mál gegn ríkinu vegna þessa sem fór alla leið upp í Hæstarétt. Málið var þó aldrei tekið til efnismeðferðar. Kristinn segir málið hafa verið fellt á því formsatriði að leyfi fyrirtækisins til blóðtöku var enn í gildi. Leyfi Ísteka sem rann út í október var veitt árið 2022 eftir að reglugerð 900/2022 var gefin út af Svandísi Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra, og byggði hún á sérstöku leyfi frá Matvælastofnun. Hún var þó felld úr gildi 1. nóvember 2023. „Núna er kominn upp annar vinkill í málinu þar sem leyfið er runnið út og taka verður málið til meðferðar,“ segir Kristinn. Málið er komið af stað en ekki er vitað hvenær til stendur að dómur falli. Kristinn segir að reglugerð EFTA eigi ekki við um blóðtöku fyrirtækisins þar sem um framleiðslu á landbúnaðarafurð sé að ræða, ekki tilraunir á dýrum í vísindaskyni. „Þetta á bara ekki við,“ segir hann. „Það er ekki það að við séum með einhverjum hætti á móti regluvæðingu. Við fylgjum eftirliti og leggjum áherslu á dýravelferð.“ Hann segir lítið um afföll í greininni í stóðunum og afar fátítt að hryssur drepist við blóðtöku. „Það hvarflar ekki að okkur annað en að þessi starfsemi haldi áfram,“ segir hann. Dýraverndunarsamtök gagnrýna blóðmerahald Blóðtaka úr fylfullum hryssum hefur verið harðlega gagnrýnd af dýraverndunarsamtökum. Til að mynda lögðu þrjú dýraverndarsamtök fram stjórnsýslukæru til atvinnuvegaráðherra vegna ákvörðunar MAST að vísa ekki kæru samtakanna til lögreglu. Þau eru Dýraverndunarsamband Íslands, þýsk-svissnesku dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation (AWF) og Tierschutzbund Zürich (TSB). Samtökin höfðu áður lagt fram sönnunargögn um dýraníð til lögreglu en lögreglan ákvað að viðhafast ekki í málinu þar sem Matvælastofnun vísaði málinu ekki til lögreglu. Svo fór að Atvinnuvegaráðuneytið vísaði kæru samtakanna frá þar sem þau voru ekki taldir aðilar að málinu. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði í apríl á þessu ári að nýtt leyfi yrði veitt til blóðtöku út frá reglugerð EFTA. Enn er þó mögulegt að dómsmálið falli Ísteka í vil og að ekki sé hægt að krefja fyrirtækið um að sækja um leyfi út frá þeirri reglugerð.